20
1 DAGLEIÐIN LANGA EUGE E O´ EILL

Dagleiðin langa

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Leikskra a flettiformi. Dagleidin langa, frumsynt i Þjoðleikhusinu 27.februar 2012

Citation preview

Page 1: Dagleiðin langa

1

DAGLEIÐIN LANGAEUGE E O´ EILL

Page 2: Dagleiðin langa

2

Eugene O’Neill

Dagleiðin langa

Leikstjórn: Þórhildur ÞorleifsdóttirLeikmynd og búningar: Jósef HalldórssonLýsing: Hörður ÁgústssonHljóðmynd: Kristinn Gauti EinarssonÞýðing: Illugi Jökulsson

Aðstoðarmaður leikstjóra: Svandís Dóra EinarsdóttirLeikmunir, yfirumsjón: Ásta JónsdóttirHárkollugerð og förðun, yfirumsjón: Valdís Karen SmáradóttirHárgreiðsla, yfirumsjón: Guðrún Erla SigurbjarnadóttirBúningar, yfirumsjón: Hjördís SigurbjörnsdóttirYfirsmiður: Ingvar Guðni BrynjólfssonJárnsmiður: Gunnar ÁrnasonUmsjónarmaður Kassans og sýningastjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir

Þjóðleikhúsið 2011–2012, 63. leikár, 24. viðfangsefni

Frumsýning í Kassanum 24. febrúar 2012

Page 3: Dagleiðin langa

3

Page 4: Dagleiðin langa

4

Persónur og leikendur

James TyroneArnar Jónsson

Mary TyroneGuðrún Snæfríður Gísladóttir

James Tyrone yngri (Jamie)Hilmir Snær Guðnason

Edmund TyroneAtli Rafn Sigurðarson

Page 5: Dagleiðin langa

5

Page 6: Dagleiðin langa

6

Eugene O’Neill (1888–1953) er af mörgum talinn fremsta leikskáld Bandaríkjanna og með leikritum sínum hafði hann mikil áhrif á þróun nútíma leik­bókmennta. Í verkum sínum tókst hann á við stórar spurningar um manninn og tilvist hans, og sýndi mikið innsæi og ríka tilfinningu fyrir hinu harm­ræna í lífinu. Honum tókst að móta nútímalegt og framsækið leikhús sem byggði jafnframt á arfleifð frá gullöld grískra leikbókmennta. Hann var afkasta­mikið leikskáld, samdi um þrjá tugi leikrita í fullri lengd og fjölda styttri verka, og gerði marg víslegar tilraunir á ferli sínum með form og efnivið.

Long Day’s Journey into Night eða Dagleiðin langa, sem hann skrifaði árið 1941 en var ekki frumflutt fyrr en að honum látnum á Dramaten í Stokkhólmi árið 1956, er þekktasta leikrit hans. Meðal annarra þekktra verka hans eru Beyond the Horizon (1920), Anna Christie (1922), Desire Under the Elms (1925), The Great God Brown (1926), Strange Interlude (1928), Mourning Becomes Electra (1931), Ah! Wilderness (1933) og The Iceman Cometh (1946).

Eugene O’Neill voru veitt Nóbelsverðlaunin í bók­menntum árið 1936, en hann er eina bandaríska leik­skáldið sem hlotnast hefur sá heiður. Hann hlaut Pulitzer­verðlaunin fjórum sinnum, fyrir Beyond the Horizon árið 1920, Anna Christie 1922, Strange Inter­lude 1928 og Long Day’s Journey into Night 1957.

Leikritið Dagleiðin langa, Long Day’s Journey Into Night, hefur tvívegis áður verið sýnt í Þjóðleik hús­

inu. Fyrst árið 1959 í þýðingu Sveins Víkings undir heitinu Húmar hægt að kveldi. Leikstjóri var Einar Pálsson. Með hlutverk Tyrone­hjónanna fóru Valur Gíslason og Arndís Björnsdóttir. Róbert Arn finnsson lék Jamie og Erlingur Gíslason Edmund. Kristbjörg Kjeld lék þjónustustúlkuna Cathleen. Verkið var aftur sett á svið árið 1982 í þýðingu Thors Vilhjálmssonar og nefndist þá Dagleiðin langa inn í nótt. Leikstjóri sýningarinnar var Kent Paul. Rúrik Haraldsson fór með hlutverk James Tyrone og Þóra Friðriksdóttir lék Mary. Arnar Jónsson lék Jamie og Júlíus Hjörleifsson Edmund. Lilja Guðrún Þor valds­dóttir lék Cathleen.

Fyrsta leikrit O’Neills sem leikið var í Þjóðleik­húsinu var Anna Christie sem sýnt var árið 1952 í leikstjórn Indriða Waage. Þjóðleikhúsið sýndi Sorgin klæðir Elektru (Mourning Becomes Electra) árið 2004 í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.

Leikfélag Reykjavíkur sýndi Ég man þá tíð (Ah! Wilderness) árið 1946 í leikstjórn Indriða Waage og Undir álminum (Desire Under the Elms) árið 1981 í leikstjórn Hallmars Sigurðssonar. Ríkisútvarpið hefur flutt Í þokunni (Fog), Á hættusvæðinu (In the Zone), Þar sem krossinn er (Where the Cross is Made), Anna Christie, Í skugga álmtrjánna (Desire Under the Elms), Mennirnir mínir þrír (Strange Interlude), Eigi má sköpum renna (Mourning Becomes Electra) og Ég man þá tíð (Ah! Wilderness).

Eugene O’Neill

Page 7: Dagleiðin langa

7

Page 8: Dagleiðin langa

8

Nú styttirðu verkið talsvert, að hverju miða stytt­ingarnar helst?

Ég hef stytt verkið um hér um bil helming, í og með vegna þess að ef verkið væri leikið óstytt væri sýningin fimm tímar – en einnig vegna þess að mig langaði í þessari sýningu að beina sjónum einungis að fjölskyldunni í verkinu. Ég hef strikað út ýmsar málalengingar og endurtekningar en einnig ýmis hliðarþemu verksins, þemu eins og hlutskipti írskra innflytjenda, kaþólska sektarkennd og hugmynda­fræðileg átök um listir og heimspeki. Þetta eru sann­arlega áhugaverð þemu, en ég vildi einbeita mér að kjarna verksins, umfjöllun höfundarins um hjálpar­leysi manneskjunnar, kúgun innan fjöl skyldu, alkó­hól isma, fíkn og meðvirkni. Það má orða það svo að ég hafi reynt að strika út allt sem vísar út fyrir þetta litla helvíti sem persónurnar brenna í.

Finnst þér það skipta máli fyrir þig sem leikstjóra að vita að fyrirmyndin að persónu Edmunds er höf­undurinn sjálfur og að hann er að skrifa um sjálfan sig og fjölskyldu sína?

Nei, í rauninni ekki. Verkið er snilldarlegt skáldverk, hvort sem það er byggt á raunverulegum fyrirmyndum eða ekki. Gildi þessa verks liggur fyrst og fremst í mjög áhugaverðri skoðun á manneskjunni, eins flókin og hún nú er. Það fjallar um manneskjur í dýpstu og sárustu neyð og hjálparleysi. Mér finnst

Manneskjur í sárri neyð og hjálparleysi Rætt við Þórhildi Þorleifsdóttur um Dagleiðina löngu

Page 9: Dagleiðin langa

9

mikilvægt að það komi fram að þetta er ekki forvarnar leikrit eða móralskt stykki, enda þurfa ekki öll leikrit að vera með einhvern „boðskap“.

Fólkið í verkinu er mjög árásargjarnt og hleypir reiði sinni og sársauka auðveldlega út, þannig að ákveðið hömluleysi einkennir samskiptin.

Þetta fólk lætur ótrúlega hluti út úr sér hvert við annað. Það er eins og það geti ekki haldið aftur af sér, en um leið og það hefur sagt eitthvað skelfilegt reynir það að draga það til baka. Við fylgjumst með persónunum biðja hver aðra afsökunar í sífellu, en samt er ekkert lát á árásunum.

Í þessu verki er allt dregið fram úr sálarkimunum og það er málað sterkum litum. Að því leyti er þetta ekki natúralistískt verk, það er sannarlega ekki eins og samtölin hafi verið tekin upp á segulband. Til þess að skoða tilfinningarnar eru þær ýktar. Vissu­lega ýkir alkóhólismi ákveðna hluti í sam skiptum, en það er ekki bara hann sem er hér að verki. Hér er búið að safna saman ýmsu af því sem getur verið hvað flóknast í samskiptum innan fjölskyldu, og myndin er dregin skýrum dráttum í sterkum litum. Ég segi stundum við leikarana: „Þið takið upp nýjan pensil og nýjan lit nánast í hverri setningu.“

Sumir ganga svo langt að segja að allar fjölskyldur séu lítil helvíti. Kveikjan að þeirri hugmynd er væntanlega sú að í öllum fjölskyldum verða til einhver mynstur, það myndast sár, það er erfitt að leysa hnúta, ómögulegt að gleyma.

Það hvernig persónurnar ráðast hver á aðra virkar í og með eins og sjálfsvörn. Þær nota ásakanir til að beina athyglinni frá sjálfum sér, að vandamálum og breyskleikum annarra.

Já, og það er makalaust að fylgjast með því hvernig

karlmennirnir í verkinu sjá ekki, eða vilja ekki sjá, vandamálin hjá sjálfum sér. Morfínfíkn móðurinnar er alltaf í miðpunkti, eins og hún sé undirrót alls vanda. Karlmennirnir í verkinu drekka látlaust áfengi, en í þeirra augum er það ekki vandamál. Þeir nota vímu móðurinnar sem afsökun, til þess að geta leitað skjóls í sinni eigin vímu. Og í raun nota þeir hvað sem er sem afsökun fyrir drykkjunni. Faðirinn er sérstaklega upptekinn af því að draga upp þá mynd af sér að hann sé ekki drykkjumaður. Hann tönnlast á því að hann hafi aldrei misst úr sýningu ­ eins og það sé raunverulegur mælikvarði á alkóhól­ismann!

Allar persónurnar í verkinu fá á sig hörð skot frá hinum persónunum, en líklega er það Jamie sem verður fyrir harkalegustu árásunum.

Já, og einkum er það faðirinn sem sýnir þessum elsta syni sínum mikla fyrirlitningu og grimmd. En um leið verðum við vör við afbrýðisemi föðurins út í son sinn, og hann sér sína eigin veikleika í honum.

Fyrir mér er Jamie á vissan hátt sjáandi í verkinu. Hann átti sína drauma, langanir og hæfileika, en er búinn að missa alla von, hann sér ekkert í rósrauðum bjarma lengur og er staðráðinn í að drekka sig í hel. Það er eins og hann taki sjálfan sig og afhendi sig yngri bróður sínum, segi „ger þú eitthvað við þetta, taktu þetta sem ég kunni ekki að ávaxta“. Það er í senn fallegt og sorglegt að taka sjálfan sig svona úr leik, afhenda annarri manneskju leifarnar af sér. Jamie er mjög tragísk persóna.

Nú eru bæði faðirinn og Jamie leikarar.Já, en það hefur ólíka þýðingu fyrir þá að vera

leikari. James Tyrone er virtur leikari og lítur á sig sem stór leikara, þótt hann sjái vissulega eftir því að

Page 10: Dagleiðin langa

10

hafa valið sér fjárhagslega trygga leið í listinni í stað þess að taka meiri áhættu og verða mikill Shakespeare­leikari. En Jamie aftur á móti er mis­heppnaður leikari.

James Tyrone lítur á sig sem mikinn listamann, og finnst það gefa sér leyfi til að vera sjálfhverfur og láta sitt líf ganga fyrir innan fjölskyldunnar. Hann lifir í hinni gömlu mýtu um „listamanninn“, sem er dýrk­aður eins og rómantísk hetja. Það að hann skuli vera mikill listamaður styrkir stöðu hans sem fjölskyldu­föður og alvalds á heimilinu. Hann er hafinn yfir allar efasemdir, hans er mátturinn og dýrðin, hvað sem hann kann svo að gera af sér. Hugmyndin um hinn sterka föður sem ræður öllu og eyðileggur allt, líka fyrir sjálfum sér, er síendurtekið þema í amerískri leikritun tuttugustu aldarinnar. Þetta er ákveðin birtingarmynd hins árþúsunda gamla feðra­veldis, þar sem faðirinn hefur svipaða stöðu innan fjölskyldunnar og guð í mannlífinu.

En um leið og við fylgjumst með eyðingarmætti James Tyrone, þá verðum við vitni að hjálparleysi hans. Þetta er hans arfleifð, hann kann ekki að stíga út úr þessu hlutverki og hann hefur sjálfur mjög veikan bakgrunn.

Jamie ber nafn föður síns. Hann er sá sem á að taka við merkinu, verða mikill leikari eins og faðirinn, og að lokum höfuð fjölskyldunnar. En hann megnar ekki að taka að sér þetta hlutverk. Hann er brotinn maður – líklega allt frá æsku.

Mary segir á einum stað í verkinu: „Fortíðin býr í nútíðinni, er það ekki? Og er líka framtíðin um leið. Við reynum öll að ljúga okkur út úr því, en lífið leyfir okkur það ekki.“

Það hvernig persónurnar hengja sig í fortíðina er hluti af lífsflótta þeirra, flótta þeirra frá því að takast

á við nútíðina og framtíðina. Þetta fólk er alltaf að fresta því að takast á við lífið. Auðvitað geturðu ekki þurrkað út það sem hefur gerst áður í lífi þínu, en þú hlýtur að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort þú ætlir að láta fortíðina eyðileggja framtíðina fyrirfram.

Þrátt fyrir alla galla þessa fólks, allt sem það gerir hvert öðru og sjálfu sér, þykir manni á einhvern hátt vænt um það. Kannski er það vegna ástarinnar sem þau bera hvert til annars þrátt fyrir allt.

Ástæðurnar fyrir því að okkur þykir vænt um þetta fólk eru margar, en ég held að fyrst og fremst sé skýringin sú að við finnum til samkenndar með því. Við þekkjum það öll að hafa gert hluti sem við sjáum eftir, að hafa sært einhvern og geta ekki tekið það til baka, að geta ekki haft þá stjórn á lífi okkar sem við myndum vilja hafa.

Fólkið í verkinu er ekki illmenni, þetta er fólk sem vill vel, en það bara kann ekki að hegða sér og koma fram við aðra eins og það myndi í raun vilja. Það missir sig, gerir ótal vitleysur. Þetta eru hjálparlausar og vanmáttugar manneskjur. Þær geta ekki tekist á við sorgina, vilja ekki horfast í augu við sannleikann. Og þær eru ófærar um að tjá ást sem engu að síður brennur innra með þeim öllum. Okkur er gefinn frjáls vilji, eða svo er sagt, en stundum er eins og manneskjan láti alla möguleika til gæfu liggja ónýtta.

Þegar ég hugsa um þetta fólk, þá eru ýmsar myndir sem koma upp í hugann. Myndir af dýrum sem eru ýmist að draga sig inn í varnarskel sína eða skjóta út broddum og stinga hvert annað með þeim. Myndir af maurum sem hlaupa stjórnlaust fram og til baka. Eða af hrauni þar sem glóandi kvikan spýtist upp.

Viðtal: Melkorka Tekla Ólafsdóttir

Page 11: Dagleiðin langa

11

Þann 22. júlí 1941 áttu banda ríska leikskáldið Eugene O’Neill og Carlotta kona hans tólf ára brúð­kaups afmæli. Þau bjuggu á rík mann legu setri að nafni Tao House í hæð ar drögunum upp af San Francisco­flóa í Kaliforníu, en það hafði O’Neill látið reisa fyrir peninga sem fylgdu Nóbels verð­laununum í bók menntum sem hann fékk 1936. Þau hjón fluttu inn ári seinna. Eins og Nóbelsverðlaunin eru til vitnis um var O’Neill eitt frægasta leikskáld heims um þær mundir, en sumir voru farnir að óttast að hann væri að mestu hættur að skrifa. Sín helstu verk fram að þessu hafði hann skrifað á þriðja áratugnum þegar hann var óstöðvandi og sendi árlega frá sér eitt ef ekki tvö leikrit sem flestöll voru hádramatísk og tilfinningaþrungin, gjarnan kölluð expressjónísk, sum voru tilraunakennd en önnur vísuðu aftur til grísku harmleikjanna. O’Neill

fjallaði opinskátt um ýmislegt sem ekki hafði áður verið boðið upp á á bandarísku leik­sviði, nema í hæsta lagi undir

rós, svo sem stéttaskiptingu, mis rétti ríkra og fátækra og milli kynstofna, eiturlyfja­ og áfengisfíkn og rang­hala kynferðislegra ástríðna. Hann hafði áhuga á syndumspilltu fólki sem barðist um í manndrafinu, oft á valdi ofstopa sem það réði ekki við. Og alls konar gamlar syndir kraumandi eins og pestarkýli í sálar lífinu. Nú um skeið hafði minna borið á O’Neill. Á fjórða áratugnum var hann hvergi nærri eins afkastamikill og á þeim þriðja, aðeins fáein leikrit voru færð upp úr smiðju hans. Carlotta sem var þriðja eiginkona hans hafði komið langþráðri reglu á býsna óreiðukennt flökkulíf leikskáldsins og sumir pískr­uðu um að með því hefði hún dregið tennurnar úr sköpunarkrafti hans.

En það var nú öðru nær. Frá því að O’Neill settist að í Tao House hafði hann glímt við sín allra metnaðarfyllstu verk og það var ekkert smáræði sem hann hafði á prjónunum. Hann ætlaði sér að skrifa sveig 11 leikrita sem áttu sameiginlega að heita A Tale of Possessors, Self­Dispossessed. Í þeim hugðist hann rekja alla sögu Bandaríkjanna gegnum vesin og sálarflækjur einnar fjölskyldu. Svo fór að hann gafst upp á þessu verkefni eftir að hafa skrifað eitt leikrit

Skrifað með tárum og blóði

Þótt listamenn sýni mikinn mannskilning í verkum sínum bregst þeim stundum

bogalistin í lífinu sjálfu. O’Neill átti þrjú börn með fyrri eiginkonum sínum tveim og

sinnti þeim lítið. Báðir synir hans urðu ættar bölinu að bráð, annar varð áfengis­

sjúklingur, hinn heróín neytandi. Báðir sviptu sig lífi. Og árið 1943 sleit O’Neill öllu

sambandi við 18 ára einka dóttur sína Oonu vegna þess að hún gekk að eiga hinn 54

ára Charlie Chaplin.

Page 12: Dagleiðin langa

12

og uppkast að öðru, en jafnframt fór hann þarna í hæðunum í Kaliforníu að fást við sína eigin fjölskyldu og erfiða fortíð sína. Carlotta skýrði frá því að oft hefði O’Neill komið nötrandi og með blóðhlaupin augu út úr vinnuherbergi sínu eftir að hafa setið þar með draugum fortíðarinnar allan daginn og reynt að koma erfiðum minningum í orð og gjörðir persóna á leiksviði. En þetta skilaði þeim árangri að á örfáum árum skrifaði O’Neill þrjú af minnisstæðustu verkum sínum. Fyrst kom The Iceman Cometh þar sem skáldið nýtir sér margvís­legar minningar sínar af hóruhúsum og sjóarabúllum á sínum yngri árum til að draga upp nöturlegar myndir af mönnum sem búa við blekkingar og loft­kastala og brostna drauma. Í verkinu A Moon for the Misbegotten fjallar O’Neill um eldri bróður sinn, sem drukkið hafði sig í hel rúmum tuttugu árum fyrr, og um minningu móður sinnar sem dáið hafði um svipað leyti.

Og svo var það Dagleiðin langa, eða Long Day’s Journey Into Night. Það var allra erfiðasta verkið. Það gerist á tæpum sólarhring í ágúst 1912 þegar Tyrone­fjölskyldan stendur frammi fyrir margvíslegum vanda. Fjölskyldufaðirinn James Tyrone er roskinn leikari sem notið hefur mikillar hylli um ævina en stríðir við andúð og fyrirlitningu sona sinna. Móð­irin Mary er hins vegar óstyrkur morfínneytandi sem ævinlega hefur leitað hælis undan stormum lífsins í minningum frá æskuárunum, en er eitthvað að marka þær? Frumburðurinn Jamie er kaldhæðinn töffari sem óvíst er hversu lengi muni koma standandi niður, en yngri sonurinn Edmund er berklaveikur –kannski dauðvona? Og allir karlmennirnir eru alvar­lega drykkjusjúkir.

Page 13: Dagleiðin langa

13

O’Neill fór aldrei í felur með að þetta verk byggði hann mjög nákvæmlega á sinni eigin fjölskyldu. Raunar má segja að Dagleiðin langa sé nánast misk­unnarlaus heimildarmynd um O’Neill fjölskyld una, svo nákvæmlega er farið eftir staðreyndum og svo djúpt er kafað. Enda gat jafnvel Eugene O’Neill, sem hafði fátt vílað fyrir sér í skáldskapnum fram að því, ekki hugsað sér að sýna nokkrum manni þennan líkskurð á hinum dauðu í fjölskyldu sinni – nema Carlottu. Það var á þessu tólf ára brúðkaupsafmæli seint í júlí 1941 sem hann færði henni verkið og skrifaði á handritið:

„Elskan: Ég gef þér frumhandritið að þessu leikriti um gamlar sorgir, sem er skrifað með tárum og blóði. Grátlega óviðeigandi gjöf, mætti ætla, á hamingjudegi. En þú skilur. Ég lít á gjöfina sem virðingarvott við ást þína og blíðu sem veitti mér þá trú á ástina er gerði mér kleift að horfast í augu við dána ástvini og skrifa þetta leikrit. Ég skrifa það með djúpri vorkunnsemi og skilningi og fyrirgefningu í garð allra hinna fjögurra sárkvöldu Tyrona. Þessi tólf ár hafa, mín elskuleg, verið Dagleið inn í birtuna, og ástina. Þú þekkir þakklæti mitt. Og ást mína.“

En þótt Carlotta fengi verkið að gjöf átti hún ekki að fá að ráða yfir því. O’Neill kom því fyrir í inn­siglaðri geymslu hjá útgefanda sínum og skipaði svo fyrir að ekki mætti gefa það út eða setja það á svið fyrr en 25 árum eftir lát hans.

Tveimur árum seinna fluttu O’Neill­hjónin frá Tao House. Hann var þá farinn að þjást af svo miklum skjálfta í höndum að hann gat ekki lengur haldið á blýanti og O’Neill gat ekki skapað neitt öðruvísi en að handskrifa það sjálfur. Í áratug þvældist hann um

eins og í gamla daga, skrifaði ekkert en heilsunni hrakaði. Allan tímann beið fjölskylda hans í hinni innsigluðu geymslu hjá útgefandanum eftir því að fá málið.

Árið 1953 dó hann á hótelherbergi í Boston. Eins og svo glöggt kemur fram í Dagleiðinni löngu var það ekki aldeilis í fyrsta sinn sem hann var gestur á hóteli. Hann hafði fæðst á leikferð föður síns sem hin hrjáða móðir hans hafði fylgt manni sínum í. Síðustu orð O’Neills voru beiskjuþrungið hvísl: „Ég vissi það. Ég vissi það. Fæddur á hótelherbergi og andskotinn hafi það, drepst á hótelherbergi!“

Ef Carlotta hefði farið að fyrirskipunum hans hefði Dagleiðin langa ekki verið frumsýnd fyrr en 1978. En það hvarflaði ekki að henni að geyma þetta snilldarverk eiginmannsins svo lengi. Það var gefið út og síðan frumsýnt 1956.

Illugi Jökulsson

Page 14: Dagleiðin langa

14

Arnar Jónsson hefur leikið fjölmörg burðarhlut­verk við Þjóðleikhúsið og víðar á nærri fimm áratuga leikferli sínum, en hann útskrifaðist úr Leiklistar­skóla Þjóðleikhússins árið 1964. Meðal nýjustu verk­efna Arnars við Þjóðleikhúsið eru titilhlutverkið í Lé konungi, lögmaður Eydalín í Íslandsklukkunni, Milla í Utan gátta, Simic í Engisprettum og Malvólíó í Þrettánda kvöldi. Af öðrum veigamiklum hlut­verkum hans hér má nefna Bjart í Sjálfstæðu fólki, titil hlutverkið í Abel Snorko býr einn, Þeseif konung í Fedru, Kreon konung í Antígónu, Helge í Veislunni, Harry Hyman í Glerbrotum, Frank í Ríta gengur menntaveginn, Gallimard í M. Butterfly, Pétur Gaut eldri í Pétri Gaut (1991), Pétur í Bílaverkstæði Badda, Jóhann í Yermu, Leslie Williams í Gísl og James Tyrone yngri í Dagleiðinni löngu inn í nótt (1982). Arnar fagnaði fjörutíu ára leikafmæli sínu hér með titilhlutverkinu í Jóni Gabríel Borkmann. Meðal verkefna hans utan Þjóðleikhússins má nefna Fandó og Lis hjá Grímu, Tveggja þjón hjá LR, Galdra­Loft í Leiksmiðjunni, Skollaleik og Don Kíkóta hjá Alþýðu­leikhúsinu og Steingestinn, Túskildings óperuna, My Fair Lady og Undir berum himni hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann lék titilhlutverkið í Kaj Munk í Kirkjul eikhúsinu og einleikinn Sveinsstykki í Loft­kastalanum. Hann hefur leikið í mörgum kvik­myndum, meðal annars í Útlaganum, Atómstöðinni, Á hjara veraldar, Maríu og Dansinum. Arnar hlaut Grímu verðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir leik sinn í Veislunni. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 1971.

Page 15: Dagleiðin langa

15

Guðrún Snæfríður Gísladóttir lauk prófi frá Leik listar skóla Íslands 1977. Hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Alþýðu­leik húsinu og Leikfélagi Reykjavíkur. Meðal nýjustu verk efna hennar hér í Þjóðleikhúsinu eru Kate Keller í Öllum sonum mínum, Metta í Íslandsklukkunni, móðirin í Leitinni að jólunum, frú Knechtling í Brennu vörgunum, Fjasti í Þrettándakvöldi, Žana í Engisprettum og sú grænklædda í Pétri Gaut. Hún hefur leikið hér mörg veigamikil hlutverk, meðal annars í Mýrarljósi, Sorgin klæðir Elektru, Vegurinn brennur, Ríkarði þriðja, Herjólfur er hættur að elska, Viktoríu og Georg, Laufunum í Toscana, Ástkonum Picassos, Draumi á Jónsmessunótt, Gullna hliðinu, Þremur systrum, Tröllakirkju, Glerbrotum, Stakka­skiptum, Sönnum sögum af sálarlífi systra, Mávinum, Ég heiti Ísbjörg ég er ljón, Heimili Vern­hörðu Alba og Stundarfriði. Meðal helstu hlutverka hennar hjá LR má nefna Öldu í Degi vonar, Elenu í Vanja frænda og titilhlutverkin í Sölku Völku og Agnesi barni guðs, en fyrir síðasttalda hlutverkið hlaut hún Menningarverðlaun DV. Hún hefur leikið í kvikmyndum, meðal annars Fórninni eftir Tar­kovskí. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir Mýrar ljós og var tilnefnd fyrir Íslandsklukkuna, Vegurinn brennur og Þrettándakvöld.

Page 16: Dagleiðin langa

16

Atli Rafn Sigurðarson útskrifaðist frá Leiklistar­skóla Íslands 1997. Hann hefur farið með fjölda veigamikilla hlutverka við Þjóðleikhúsið, en hefur einnig leikið með Vesturporti og öðrum leik hópum, í sjónvarpi og kvikmyndum. Meðal nýjustu hlutverka Atla Rafns í Þjóðleikhúsinu eru sonurinn í Svörtum hundi prestsins, George Deever í Öllum sonum mínum, Játgeir í Lé konungi og Skati og Sigvatur apvetníngur í Gerplu. Meðal annarra verkefna hans hér eru Óhapp, Leg, Túskildingsóperan, Halldór í Hollywood, Grjótharðir, Edith Piaf, Þetta er allt að koma, Dýrin í Hálsaskógi, Pabbastrákur, Halti Billi, Laufin í Toscana, Draumur á Jónsmessunótt, Gullna hliðið, RENT, Bróðir minn Ljónshjarta og Kaffi. Hann lék titilhlutverkið í Axlar­Birni og í Komm­únunni hjá Vesturporti og Eilífri óhamingju hjá Hinu lifandi leikhúsi. Hann lék í kvik mynd unum 101 Reykjavík, Myrkrahöfðingjanum, Ikingut, Mýr­inni og Veðramótum. Hann leikstýrði Brák á Sögu­loftinu í Landnámssetrinu og Frida ... viva la vida í Þjóðleikhúsinu. Atli Rafn hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Mýrinni. Hann hlaut Grímuverð­launin fyrir leik sinn í Lé konungi og var tilnefndur fyrir leik sinn í Grjóthörðum, Legi, Halldóri í Hollywood og Eilífri óhamingju.

Page 17: Dagleiðin langa

17

Hilmir Snær Guðnason lauk námi við Leiklistar­skóla Íslands árið 1994. Hann hefur farið með fjölmörg veigamikil hlutverk í Þjóðleikhúsinu, meðal annars í Fávitanum, West Side Story, Þreki og tárum, Hamingju ráninu, Leitt hún skyldi vera skækja, Þremur systrum, Hamlet, Lista verkinu (1997 og 2011), Tveim tvöföldum, Fedru, Draumi á Jónsmessu­nótt, Horfðu reiður um öxl, Veislunni, Með fulla vasa af grjóti, Ríkarði þriðja, Sorgin klæðir Elektru, Öxinni og jörðinni, Dínamíti, Hjónabandsglæpum og Ívanov. Hann fer með hlutverk Ólafs Kárasonar í Heimsljósi hér í vetur. Hann lék í Beðið eftir Godot, Amadeusi, Milljarðamærin snýr aftur, Faust, Dúfunum, Ofviðrinu og Strýhærða Pétri í Borgar­leikhúsinu. Hann lék meðal annars í kvik myndunum 101 Reykjavík, Englum alheimsins, Myrkra­höfðingjanum, Hafinu, Mávahlátri og Brúðgum­anum. Hann leikstýrði Gullna hliðinu og Böndunum á milli okkar í Þjóðleikhúsinu, Abigail heldur partí, Degi vonar, Fjölskyldunni og Kirsuberjagarðinum í Borgarleikhúsinu, Kráku höllinni hjá Nemenda­leikhúsi LHÍ og Töfraflautunni í Íslensku óperunni. Hilmir hefur hlotið margar tilnefningar til Grímu­verðlaunanna og hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í Veislunni og Ég er mín eigin kona og leikstjórn sína á Fjölskyldunni. Hann fékk Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu í Hamlet og Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Mávahlátri. Hann hlaut Stefaníu stjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2000.

Page 18: Dagleiðin langa

18

Þórhildur Þorleifsdóttir hefur sett upp fjölda leikrita, söngleikja og ópera í öllum atvinnu leik­húsum landsins og leikstýrt sjónvarps­ og kvikmyndum. Hún var einn stofnenda Leiksmiðjunnar árið 1968 og Alþýðuleikhússins árið 1975. Meðal leikstjórnarverkefna hennar í Þjóðleikhúsinu eru Engisprettur, Virkjunin, Glerbrot, Niflungahringurinn á Listahátíð 1994, 13. krossferðin, M. Butterfly, Pétur Gautur, Yerma, Villihunang, Sveyk í síðari heimsstyrjöldinni og Gustur. Hún leikstýrði meðal annars Kysstu mig Kata, Sölumaður deyr, Híbýlum vindanna og Chicago í Borgarleikhúsinu, My Fair Lady hjá Leikfélagi Akureyrar, Töfraflautunni, Il Trovatore og Otello í Íslensku óperunni, Skollaleik og Krummagulli hjá Alþýðuleikhúsinu og nú síðast Hjóna­bandssælu í Gamla bíói. Hún var leikhússtjóri Borgarleikhússins frá 1996 til 2000. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikstjórn sína á Engisprettum og sýning hennar á Chicago hlaut áhorfendaverðlaun Grímunnar.

Jósef Halldórsson nam arkítektúr við Technische Universität Berlin og vann um árabil við húsa­hönnun. Hann hannaði í fyrsta sinn leikmynd og búninga árið 2008, fyrir Gegen die Wand í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar hjá Stadtstheater Schwerin í Þýskalandi. Hann gerði leikmynd og búninga fyrir Clockwork Orange hjá Stadtstheater Schwerin og fyrir Lé konung og Mutter Courage hjá Stadtstheater Konstanz. Mutter Courage hlaut verðlaun sem besta sýningin á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Erbil í Írak og hlaut einnig verðlaun fyrir leikmynd. Jósef hannaði leikmynd fyrir Meistarann og Margarítu í Landestheater Tübingen og vinnur nú að leikmynd og búningum fyrir Othello við leikhúsið í St. Gallen í Sviss.

Illugi Jökulsson hefur starfað við fjölmiðla sem blaðamaður, ritstjóri og þáttagerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi og sent frá sér bækur um margvísleg efni. Hann sá lengi um þáttaröðina Frjálsar hendur á Rás 1 og hefur meðal annars sent frá sér bækur um sögu Íslands á 20. öld, skák­meistara og íslenska nasista. Hann hefur gefið út tvær skáldsögur, fimm barnabækur og ljóðabók. Hann hefur þýtt fjölda leikrita, einkum fyrir Ríkisútvarpið, en Þjóðleikhúsið sviðsetti þýðingu hans á Poppkorni eftir Ben Elton. Hann hefur skrifað leikgerðir, bæði fyrir útvarp og svið. Þjóðleikhúsið sýndi leikgerð hans Sitji guðs englar eftir sögum Guðrúnar Helgadóttur og Borgarleikhúsið leikgerð eftir Skógarlífi Rudyards Kiplings.

Hörður Ágústsson hefur unnið við Þjóðleikhúsið sem ljósamaður síðastliðin fimmtán ár. Hann hannaði lýsingu ásamt öðrum í Mýrarljósi og Ern eftir aldri sem var samstarfsverkefni Þjóðleik­hússins og Svöluleikhússins. Hann hannaði lýsingu fyrir Eldhús eftir máli, Sitji guðs englar, Konuna áður, Vígaguðinn og Þann ljóta hér í Þjóðleikhúsinu.

Page 19: Dagleiðin langa

19

Í sýningunni eru flutt brot úr Lé konungi eftir William Shake speare í þýðingu Þórarins Eldjárns, öðrum verkum Shakespeares í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, ljóðinu Ölvið ykkur eftir Baudelaire í þýðingu Jóns Óskars og ljóðinu Kveðju stund eftir Swinburne í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar og Thors Vilhjálmssonar.

Leikritið Long Day’s Journey Into Night var sýnt í Þjóðleik­húsinu árið 1982 í þýðingu Thors Vilhjálmssonar og kallaðist þá Dagleiðin langa inn í nótt. Þýðandi verksins nú þakkar afkomendum Thors þá velvild að hafa heimilað notkun á fyrri hluta heitisins á þýðingu hans.

Sýningin tekur tæpa þrjá tíma. Eitt hlé.

Píanóleikur: Kjartan Valdimarsson

Miðasölusími: 551 1200. Netfang miðasölu: [email protected] Netfang Þjóðleikhússins: [email protected]íða Þjóðleikhússins: www.leikhusid.is

Ritstjórn leikskrár: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Umsjón: Sigurlaug Þorsteinsdóttir. Útlit: PIPAR\TBWA.

Ljósmyndir: Eddi. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja. Útgefandi: Þjóðleikhúsið. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því

ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar.

Page 20: Dagleiðin langa

20