12
Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun Tengsl atvinnustöðu, aldurs og huglægrar vellíðunar í 23 OECD löndum Arndís Vilhjálmsdóttir Fanney Þórsdóttir Viðskiptafræðideild Ritstjóri Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2012 Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands Ingjaldur Hannibalsson

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

  • Upload
    others

  • View
    0

  • Download
    0

Embed Size (px)

Citation preview

Page 1: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

1

Aldur, atvinnustaða og

huglæg vellíðun Tengsl atvinnustöðu, aldurs og

huglægrar vellíðunar í 23 OECD löndum

Arndís Vilhjálmsdóttir

Fanney Þórsdóttir

Viðskiptafræðideild

Ritstjóri

Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2012

Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Ingjaldur Hannibalsson

Page 2: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

1

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

Tengsl atvinnustöðu, aldurs og huglægrar vellíðunar í 23 OECD löndum

Arndís Vilhjálmsdóttir Fanney Þórsdóttir

Þeir sem eru hamingjusamir bera allir sama yfirbragðið. Þeir sem eru óhamingjusamir eru það aftur á móti hver á sinn hátt (Tolstoy, 1879-7/2003).

Það er eitthvað heillandi við margbreytileika óhamingjunnar. Stórskáldin skrifa að öllu

jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus

uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar á öðrum. Skáldin sjá þetta og skilja

og gera að uppsprettu sagna sinna rétt eins og við ætlum okkur að gera hér á þessum

blaðsíðum. Óhamingja annarra skiptir okkur máli af því að hún er mögulega okkar

eigin óhamingja líka - í það minnsta einhver útgáfa af henni eða hliðstæða.

Í dag standa margir Íslendingar frammi fyrir þeirri óhamingju að vera atvinnulausir.

Atvinnuleysi er almennt álitið hið mesta lífsböl og staða sem enginn vinnufær

manneskja vill vera í. Við vitum þó að fólk bregst á ólíkan hátt við erfiðleikum lífsins.

Svo virðist sem sumir taki mótvindi með æðruleysi á meðan svartnættið blasir við

öðrum við svipaðar aðstæður. Tilfinnanlegur skortur er þó á rannsóknum á breytileika

í tilfinningalegum viðbrögðum fólks við atvinnuleysi. Þessi grein þjónar þeim tilgangi

að taka eitt skref í þá átt að bæta þar úr. Það er von okkar að hún kveiki umræðu sem

byggð er á tölulegum gögnum og verði þannig uppspretta frekari rannsókna á

málefninu.

Atvinnustaða, aldur og huglæg vellíðun

Tæknilega hafa þeir sem eru atvinnulausir þá stöðu á vinnumarkaði að vera hluti

tiltæks vinnuafls en ekki í launaðri vinnu. Það er hins vegar gert ráð fyrir að þeir séu

virkir í atvinnuleit sinni og reiðubúnir að hefja vinnu innan skamms tíma (Hagstofa

Íslands, 2012; OECD, 2012b). Þeir sem eru atvinnulausir eru því mikilvægur hluti

vinnuaflsins, þótt þeir séu ekki í vinnu og það er mikilvægt að aðgreina þá frá þeim

sem eru ,,ekki í vinnu” (t.d. heimavinnandi húsmæður/húsfeður) (Grint, 1998).

Þessi munur dregur fram mikilvægi þess að vera í launaðri vinnu en segja má að á

Vesturlöndum sé vinnan miðlæg í lífi fólks (Ólafsson, 1996; Rosso, Dekas og

Wrzesniewski, 2010). Það má jafnvel ganga svo langt að segja að staða á vinnumarkaði

skilgreini að einhverju (og kannski fyrir suma að mjög miklu leiti) hverjir þeir eru (Hogg

og Terry, 2001; Sadeh og Karniol, 2012). Starfsmissir og/eða atvinnuleysi getur þannig

verið mörgum gríðarlega erfitt. Rannsóknir benda til að slíkri lífsreynslu fylgi töluverð

óhamingja (McKee-Ryan, Song, Wanberg og Kinicki, 2005; Paul og Moser, 2009;

Connie R. Wanberg, Kammermeyer-Mueller og Shi, 2001) og heilsutap, jafnvel miklu

síðar á lífsleiðinni (Iversen og Sabroe, 1988; Mattiasson, Lindgarde, Nilsson og

Theorell, 1990; Salm, 2009).

Þegar óhamingja (eða öllu heldur hamingja) er mæld er venjulega verið að mæla

það sem hefur verið kallað huglæg vellíðun (subjective well-being) (Diener, Suh, Lucas og

Page 3: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Arndís Vilhjálmsdóttir og Fanney Þórsdóttir

2

Smith, 1999). Diener o.fl. (1999) skilgreina huglæga vellíðun sem yfirgripsmikla

hugsmíð sem felur í sér mat fólks á því hversu ánægt það er með lífið og einstaka þætti

þess (t.d. heilsu sína). Huglæg vellíðun getur verið mikilvægur mælikvarði á heilsu og

lífsgæði. Til dæmis verða sum einkenni slæms líkamlegs heilsufars ekki skilin nema

með því að hreinlega spyrja fólk: „hvernig líður þér?“ (Sherbourne, Allen og Kamberg,

1992). Á sama hátt er ekki nóg að líta til félagslegra aðstæðna eingöngu, þegar lífsgæði

fólks eru metin þar sem fólk bregst á mismunandi hátt við aðstæðum.. Mat þeirra er

háð væntingum þeirra, gildum og fyrri reynslu (Diener og Suh, 1997).

Neikvætt samband atvinnuleysis og huglægrar vellíðunar hefur verið stutt nokkuð

vel með rannsóknum (McKee-Ryan o.fl, 2005; Wanberg o.fl, 2001) og raunar að því

marki að talað er um orsakasamband (Paul og Moser, 2009). Hins vegar virðist sem

svo, að þetta samband geti verið háð öðrum þáttum. Stavrova, Schlosser og

Fetchenhauer (2011), fundu til dæmis mikinn breytileika í huglægri vellíðun

atvinnulausra eftir samfélagsgerð. Í samfélögum þar sem vinnugildi voru sterk var

nánast enginn munur á huglægri vellíðun atvinnulausra og þeirra sem voru í vinnu en

annars staðar var þessi munur gríðarmikill. Það er því ekki ólíklegt að huglæg vellíðun

atvinnulausra geti verið breytileg eftir öðrum þáttum, til að mynda eftir aldri (Diener

og Suh, 1997; Diener o.fl, 1999).

Efnahags og framfarastofnunin (OECD) hefur verið virk í útgáfu viðvarana vegna

atvinnuleysis meðal ungmenna. Tölfræði OECD sýnir að hinn mikli efnahagslegi

samdráttur hefur haft mikil áhrif á atvinnustöðu ungs fólks (OECD miðar við fólk á

aldrinum 16-24 ára) á Vesturlöndum (OECD, 2011, 2012a). Innan OECD landanna

eru ungmenni þrisvar sinnum líklegri til þess að vera atvinnulaus en eldra fólk og talið

er að um 15 milljónir ungmenna hafi þar stöðu atvinnulausra á vinnumarkaði í dag

(Scarpetta, Sonnet og Manfredi, 2010). Fyrir þá sem eru ungir og reynslulitlir eru

horfurnar á atvinnumarkaði því ekkert sérstaklega uppörvandi.

Hið gríðarlega atvinnuleysi meðal ungmenna hefur knúið alþjóðastofnanir til þess

að vara við því að atvinnulífið sé mögulega að missa kynslóð vinnuafls út af

vinnumarkaðinum (Gurría, 2012; ILO, 2012; OECD, 2012a; UN, 2012). Þessi kynslóð,

sem kennd hefur verið við Þúsöldina, á það á hættu að „týnast“ í hringiðu atvinnuleysis,

óstöðugs vinnumarkaðar og eigin athafnaleysis og „skaðast“ þannig varanlega sem

vinnuafl. Efnahagslegar afleiðingar slíks kynslóðataps geta auðvitað verið mjög

alvarlegar (OECD, 2008).

Hins vegar er stríðskostnaður atvinnuleysis til viðbótar við vannýtingu vinnuafls í

hagkerfinu, nokkuð mikill (Winkelmann og Winkelmann, 1998). Að takast á við

atvinnuleysi í efnahagslegum samdrætti er erfitt fyrir hvern sem er en ungmenni sem

skortir reynslu og hugsanlega einnig menntun og verkþekkingu, gerir þau óaðlaðandi

fyrir vinnuveitendur og útsetur þau fyrir höfnun á vinnumarkaði. Þau eru jafnframt

viðkvæmari fyrir sveiflum í atvinnulífinu (business cycle) og eiga þannig á hættu að vera

fyrst sagt upp þegar syrtir í álinn (OECD, 2009).

Hafa þarf ennfremur hliðsjón af því að vinnuafl dagsins í dag þarf að takast á við

aðra óvissu, til dæmis sífellt meiri tæknilegar kröfur, alþjóðavæðingu og síbreytilega

vinnu- og verkferla (Erez, Kleinbeck og Thierry, 2001) Hömlur á inngöngu ungmenna

á vinnumarkað eru því nægar, fyrir utan litla eftirspurn eftir vinnuafli. Ljóst er að

tiltölulega fá ungmenni festa ráð sitt í vinnu og hefja sinn starfsframa þegar menntun

lýkur og þótt margir snúi aftur í skóla þegar enginn vinna fæst eru þó einnig margir

sem ílengjast í stöðu atvinnulausra (Scarpetta o.fl., 2010).

Miðað við hina döpru framtíðarsýn á vinnumarkaði fyrir ungt fólk, er ekki ólíklegt

að ungmennum líði verr en þeim sem eru eldri eru, þegar staðið er frammi fyrir

atvinnuleysi. Rannsóknir benda reyndar til þess að sálræn líðan ungu kynslóðarinnar

hafi almennt versnað (Twenge, Campbell, Hoffman og Lance, 2010; Twenge, Gentile,

o.fl., 2010) og þótt ekki megi skrifa þá hnignun alfarið á atvinnuástandið í heiminum,

Page 4: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

3

væri það vel skiljanlegt að slæmar framtíðarhorfur á vinnumarkaði valdi ungu

atvinnulausu fólki meiri vanlíðan en eldra fólki í sömu stöðu.

Rannsóknir á huglægri vellíðun með tilliti til aldurs og atvinnustöðu eru aftur á

móti fáar (McKee-Ryan o.fl, 2005). Nýleg íslensk meistararitgerð Hólmfríðar

Ingvarsdóttur (2011) bendir þó til að ungt atvinnulaust fólk (á aldrinum 18-24 ára) líti

svo á að atvinnuleysi henti þeim ágætlega og að líðan þeirra hafi jafnvel batnað við

atvinnuleysi. Hólmfríður ber hins vegar ekki saman líðan atvinnulausra eftir

aldurshópum og skoðaði einungis átta einstaklinga. Það er því ekki hægt að segja til

um á grundvelli hennar rannsóknar hvort líðan atvinnulausra sé háð aldri þar sem

kerfisbundin samanburð við eldri aldurshópa skorti.

Erlendar rannsóknir þar sem skoðuð hafa verið tengsl huglægrar vellíðunar

atvinnulausra eftir aldri hafa ýmist gefið bent til að til staðar séu ómarktæk tengsl (Baik,

Hosseini og Priesmeyer, 1989; Creed, Muller og Machin, 2001; Vuori, Silvonen,

Vinokur og Price, 2002), neikvæð tengsl, (huglæg vellíðun versnar með aldri

atvinnulausra) (Kemp og Mercer, 1983; Wanberg, Carmichael og Downey, 1999) eða

jákvæð tengsl (huglæg vellíðun batnar með aldri atvinnulausra) (Jackson og Warr,

1984).

Þessar rannsóknir hafa eingöngu miðast við úrtak atvinnulausra en eftir því sem

höfundar best vita eru engar rannsóknir til, þar sem könnuð hafa verið víxlhrif aldurs

og atvinnustöðu á huglæga vellíðun. Það er að segja ekki hefur verið tekið tillit til

áhrifs þess að vera í vinnu annars vegar og þess að vera atvinnulaus hins vegar á

huglæga vellíðun miðað við aldur. Markmið þessarar rannsóknar er því að kanna hvort

samband atvinnustöðu og huglægrar vellíðunar sé háð aldri. Þar sem OECD hefur

verið virkt í útgáfu viðvaranna um atvinnuleysi meðal ungmenna, munum við kanna

þessi tengsl í löndum sem hafa aðild að OECD, þar á meðal á Íslandi.

Aðferð

Gögn

Lífsgildakönnunin (European Values Study) (EVS, e.d.-b) er alþjóðleg þversniðs- og

langtímarannsókn á lífsgildum fólks í 45 löndum. Spurningalisti

Lífsgildakönnunarinnar er hannaður með hliðsjón af þemunum: trú og siðferði,

stjórnmál, vinnu og frítíma og loks varðandi félagsleg tengsl fólks. Gögnum hefur

verið safnað frá því 1984 og yfirleitt á tíu ára fresti Þar sem við vildum reyna að

komast sem næst ástandinu á vinnumarkaðinum eftir upphaf hins mikla

efnahagssamdráttar og minnkandi eftirspurnar eftir vinnuafli eru gögnin sem hér eru

notuð úr nýjustu könnuninni frá árunum 2008 til 2010.

Framkvæmd

Unnið var úr fyrirliggjandi gögnum sem aðgengileg eru á síðu Lífsgildakönnunarinnar

(EVS, e.d.-a) í gegnum GESIS gagnabankann fyrir félagsvísindi (GESIS Data Archive

for the Social Sciences) í Köln (GESIS, e.d.). Af 45 löndum sem Lífsgildakönnunin nær til

voru 25 af þeim OECD lönd sem komu til greina fyrir greiningu okkar. Þetta voru

Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland,

Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Noregur, Pólland,

Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Bretland, Svíþjóð og Tyrkland. Tyrkland var

hins vegar ekki tekið til greina vegna náinna tengsla sinna við Austurlönd en við

vildum takmarka okkur við Vesturlönd. Einnig þurfti að útiloka Svíþjóð þar sem ekki

reyndist unnt að afmarka aldurshópa á sambærilegan hátt og fyrir önnur lönd. Löndin

sem könnunin náði til voru því 23.

Könnunin var lögð fyrir sambærilegt úrtak úr þjóðskrá í hverju landi (representative

national sample). Spurningalisti könnunarinnar var lagður fyrir af sérþjálfuðum

Page 5: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Arndís Vilhjálmsdóttir og Fanney Þórsdóttir

4

sérfræðingum í viðtölum, augliti til auglitis í 74% tilfella en í gegnum síma í 26% tilfella.

Könnunin er lögð fyrir á tungumáli hvers lands fyrir sig en þýðingaferlið fylgir

ströngustu gæðakröfum um slíkt ferli svo tryggt sé að spurningalistar séu fyllilega

sambærilegir (EVS, e.d.-c).

Þátttakendur

Af þeim 33.453 sem voru í gagnasafninu, töldust 19.808 vera á vinnumarkaði, þar af

1.736 atvinnulausir og 18.072 í vinnu. Það gerir 9% atvinnuleysi meðal þátttakenda

sem teljast til vinnuafls í þessari umferð Lífsgildakönnunarinnar og reynist það vera

nokkuð nærri atvinnuleysistölu OECD (2011) frá árunum 2008 til 2010. Atvinnulausir

voru síaðir út samkvæmt breytunni „Ert þú sjálfur í launaðri vinnu núna? Vinsamlegast

veldu af spjaldinu viðeigandi svar um stöðu þína á vinnumarkaði“ (Q111). Þeir sem völdu

valkostinn „atvinnulaus“ eru þeir sem enduðu í úrtaki okkar. Þeir sem töldust vera í

vinnu voru þeir sem merktu við valkostina „30 stundir á viku eða meira“, „minna en 30

stundir á viku“ og „í sjálfstæðum rekstri“. Fólk á eftirlaunaaldri, þeir sem gegna

herþjónustu, skólafólk, heimavinnandi húsmæður/húsfeður og öryrkjar voru þannig

útilokaðir í greiningu okkar þar sem þeir teljast ekki til vinnuafls. Í töflu 1 má sjá

fjöldatölur fyrir þá sem teljast til vinnuafls og hlutfall atvinnulausra af heildarvinnuafli í

úrtökum hvers lands.

Tafla 1. Fjöldi atvinnulausra og þeirra sem eru í vinnu í gagnasafni

Lífsgildakönnunarinnar

Land Atvinnulausir Í vinnu

Vinnuafl

samtals

Hlutfall

atvinnulausra

Norður-Evrópa

Bretland 114 731 845 13%

Danmörk 27 972 999 3%

Eistland 43 886 929 5%

Finnland 62 695 757 8%

Írland 70 549 619 11%

Ísland 39 593 632 6%

Noregur 9 754 763 1%

Vestur-Evrópa

Austurríki 34 827 861 4%

Belgía 100 804 904 11%

Frakkland 69 804 873 8%

Holland 19 843 862 2%

Lúxemborg 46 877 923 5%

Sviss 24 799 823 3%

Þýskaland 232 1044 1276 18%

Austur-Evrópa

Pólland 113 767 880 13%

Slóvakía 89 726 815 11%

Slóvenía 56 704 760 7%

Tékkland 67 943 1010 7%

Ungverjaland 125 786 911 14%

Suður-Evrópa

Grikkland 64 680 744 9%

Ítalía 98 769 867 11%

Portúgal 118 730 848 14%

Spánn 118 763 881 13%

Samtals 1736 18046 19782 9%

Page 6: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

5

Aldurspönn þátttakenda sem töldust vera í vinnu náði frá 16 ára til 103 ára en

aldursspönn atvinnulausra svarenda náði frá 18 ára að 89 ára aldri. Aldur þátttakenda

var reiknaður sem aldur á þeim tíma sem þeir svöruðu könnuninni, enda er fór

könnunin ekki fram á sama tíma í öllum löndum.

Mælitæki

Tvíkostabreytan „atvinnustaða“ var notuð til þess að tákna línulega breytingu frá

atvinnuleysi til þess að vera í vinnu þar sem að þeir sem söguðust vera atvinnulausir fengu

gildið 0 en þeir sem sögðust vera í vinnu fengu gildið 1.

Fylgibreytan huglæg vellíðun var mynduð af þremur atriðum sem lögð voru saman og

snúið þannig að eftir því sem hærra var farið á kvarðanum þeim mun meiri vellíðun.

Þessi þrjú atriði voru eftirfarandi: „Ef á allt er litið, telur þú að þú sért: (1) ekki mjög

hamingjusamur; (4) mjög hamingjusamur“ (Q3), „Hvernig er heilsufar þitt þessa dagana, þegar á

heildina er litið? Myndir þú segja að heilsufar þitt sé (1) mjög slæmt; (5) mjög gott (Q4) og að

lokum „Hve ánægð(ur) ert þú með lífið þessa dagana þegar á heildina er litið? þar sem

þátttakendur voru beðnir að meta lífsánægju sína á kvarðanum (1) óánægð(ur) til 10

ánægð(ur).

Niðurstöður

Niðurstöður aðhvarfsgreiningar (líkan 1), sýna jákvæð tengsl milli þess að vera í vinnu

og huglægrar vellíðunar (βatvinnustaða= 0.216, p<0,001) eins og búist var við. Þeim sem eru

í vinnu virðist þannig líða betur en þeim sem eru atvinnulausir. Niðurstöður fyrir hvert

land má svo sjá í töflu 2. Af löndunum 23 sem eru í úrtaki okkar má finna jákvæð

tengsl milli huglægrar vellíðunar og þess að vera í vinnu í alls 20 löndum. Það er aftur

á móti athyglisvert að engin slík tengsl fundust í þremur löndum, þar á meðal Íslandi.

Engan mun er þannig að finna á huglægri vellíðun fólks á Íslandi eftir því hvort það er

í vinnu eða atvinnulaust. Þetta á einnig við um Noreg og Spán.

Þegar áhrif atvinnustöðu á samband aldurs og huglægrar vellíðunar voru skoðuð

fyrir heildarúrtakið kom í ljós að þau voru háð aldri (líkan 2). Því eldra sem fólk var

því meiri munur var á vellíðun þeirra sem voru atvinnulausir og þeirra sem voru í

vinnu (βatvinnustaða*aldur= 0.223, p<0,001). Áhrif þess að vera atvinnulaus á hugræna

vellíðun virðast þannig minnka eftir því sem fólk er yngra. Þegar niðurstöður voru

skoðaðar fyrir hvert land kom í ljós að víxhrifin voru einungis tölfræðilega marktæk í

þremur löndum, Austurríki, Frakklandi og Sviss. Auk þess voru áhrifastuðlar nálægt

því að vera markækir fyrir norska og slóvenska úrtakið. Þó voru áhrifastuðlar víxlhrifa

umtalsverðir í úrtökum nokkurra landa án þess að vera marktækir. Þar er helst að

nefna Noreg og Slóveníu en einnig má nefna Danmörk, Ungverjaland, Þýskaland og

Portúgal. Oft voru fáir atvinnulausir í þessum úrtökum sem mögulega gæti skýrt af

hverju áhrifastuðlar eru ekki tölfræðilega marktækir þótt þeir séu jákvæðir eins og

birtist í heildarúrtakinu.

Líkt og áður hefur komið fram fyrir heildarúrtakið fundust engin víxlhrif aldurs og

atvinnustöðu á huglæga vellíðun fyrir Ísland. Það er þó athyglisvert að víxlhrifsstuðull

íslenska úrtaksins er í öfuga átt miðað við víxlhrifsstuðul heildarinnar, sem mögulega

bendir til þess að neikvæð áhrif atvinnuleysis á huglæga vellíðun séu meiri eftir því sem

fólk er yngra.

Page 7: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Arndís Vilhjálmsdóttir og Fanney Þórsdóttir

6

Tafla 2. Niðurstöður aðhvarfsgreiningar huglægrar vellíðunar, aldurs og

atvinnustöðu

Marktækir áhrifastuðlar eru stjörnumerktir og feitletraðir. Markekt miðast við: *p<0.05, **p<0.01 og ***p<0.001. Tæplega marktækir (p<.0.06) áhrifastuðlar eru merktir með †.

Umræða

Niðurstöður greiningar okkar staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna (McKee-Ryan o.fl.,

2005; Paul og Moser, 2009) um tengsl atvinnuleysis og huglægrar vellíðunar. Þegar

einungis er skoðaður breytileiki í huglægri vellíðun fyrir heildarúrtakið benda

niðurstöður til þess að fólki í vinnu líði betur en fólki sem er án vinnu. Niðurstöður

benda einnig til þess að víxlhrif aldurs og atvinnustöðu á huglæga vellíðun séu

umtalsverð. Svo virðist sem huglæg vellíðun sé verri eftir því sem fólk er eldra og

atvinnulaust. Það virðist þannig hafa minni áhrif á huglæga vellíðun þeirra sem yngri

eru að vera atvinnulaus.

Líkan 1

Heildarniðurstöður/

Land Atvinnustaða Atvinnustaða Aldur Víxlhrif

Heild .216*** .080** -.230*** .223***

Norður-Evrópa

Bretland .289*** .242* .-098 .079

Danmörk .138*** .045 -.156 .220

Eistland .132*** .103 -.186 .044

Finnland .199*** .330* .134 -.209

Írland .139** .090 -.080 .078

Ísland .078 .178 .250 -.222

Noregur .035 -.167 -.576 .630†

Vestur-Evrópa

Austurríki .144*** -.108 -.481* .549*

Belgía .192*** .152 -.163 .070

Frakkland .130*** -.179 -.478*** .493**

Holland .110** .132 -.082 -.052

Lúxemborg .182*** .076 -.179 .188

Sviss .260*** -.064 -.760*** .790***

Þýskaland .503*** .360** -.211** .185

Austur-Evrópa

Pólland .111** .003 -.304** .177

Slóvakía .270*** .198 -.240* .100

Slóvenía .185*** -.057 -.426** .382†

Tékkland .123** .171 -.149 -.036

Ungverjaland .311*** .122 -.396*** .293

Suður-Evrópa

Grikkland .180*** .181 -.103 .015

Ítalía .134** .280** .103 -.219

Portúgal .163** .014 -.356** .199

Spánn .034 -.021 -.214* .085

Líkan 2

Page 8: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

7

Það vekur aftur á móti athygli okkar að niðurstöður fyrir Ísland eru mögulega í

mótsögn við niðurstöður Hólmfríðar (2011). Rétt er þó að ítreka að víxlhrifstuðull var

ekki marktækur á Íslandi en einungis 39 þeirra Íslendinga sem tóku þátt í könnuninni

voru atvinnulausir en stærð úrtaksins gæti haft áhrif á afköst marktektarprófsins. Við

köllum eftir íslenskum rannsóknum á þessu efni.

Mögulegar ástæður – vinnugildi og misræmi

Þar sem heildarniðurstöður eru fyrst og fremst lýsandi fyrir tengsl huglægrar vellíðunar,

aldurs og atvinnuleysis er útilokað að fullyrða um orsakir þeirra. Ólíklegt verður þó að

teljast að aldur út af fyrir sig sé áhrifabreyta á vellíðun atvinnulausra. Adrian Furnham

(1990) hefur bent á að aldur hefur margar fylgibreytur sem haft gætu áhrif á viðhorf til

vinnu, svo eitthvað sé nefnt. Furnham bendir til dæmis á að vinnugildi mótmælenda

(protestant work ethic) verði venjulega sterkari með aldri, rétt eins og íhaldsemi. Líta má á

það sem nefnt hefur verið vinnugildi mótmælenda sem hefðbundin vinnugildi á

Vesturlöndum (Bouma, 1973; Ciulla, 2000; Furnham, 1984; Furnham o.fl., 1993) og

merkir í einföldu máli hversu viljugt fólk er til að vinna og sýna dugnað í vinnu.

Vinna hefur siðferðislegt gildi í vestrænu samfélagi þar sem allir sem eru til þess

færir eiga að vera í vinnu. Þeir sem eru duglegir í vinnu eru álitnir aðdáunarverðir, agaðir

og njóta velgengni (Ciulla, 2000). Það er því ekki að furða að vísað hefur verið til

vinnugilda sem forspá fyrir og skýringu á hagrænni velgengni (Becker og Woessmann,

2009; Handy 2001; Porter, 2010; Weber, 2003), á meðan hnignun þeirra hefur verið

kennt um efnahagslegar dýfur (Pinder, 2008). Rannsóknir benda til þess að vinnugildi

séu að minnsta kosti mikilvæg fyrir vinnutengda hegðun (Chatman, 1989; Judge og

Bretz, 1992; Kristof-Brown, Zimmerman og Johnson, 2005). Rannsóknir á tengslum

vinnugilda og aldurs hafa aftur á móti enn ekki gefið neina skýra vísbendingu um

hvers eðlis þau eru nákvæmlega (Kowske, Rasch og Wiley, 2010; Wey Smola og

Sutton, 2002). Nokkur umræða er þó um að vinnugildum í vestrænum samfélögum

hafi hnignað (Ali, Falcone og Azim, 1995; Hansen og Leuty, 2012; Inceoglu, Segers og

Bartram, 2012; Pinder, 2008). Það má því vera vel þess virði að kanna hvort vinnugildi

geti skýrt samband huglægrar vellíðunar og atvinnustöðu.

Áhrif vinnugilda á samband huglægrar vellíðunar og atvinnustöðu mætti til að

mynda útskýra með tilliti til misræmiskenninga. Misræmiskenningar (discrepancy theories)

(Festinger, 1957; Higgins, 1987; Michalos, 1985) gera jafnan ráð fyrir því að vanlíðun

sem fylgir muninum á því sem er og því sem ætti að vera hvetji fólk til þess að grípa til

aðgerða til að draga úr vanlíðuninni og auðvitað helst upplifa vellíðun. Misræmið getur

annaðhvort falið í sér neikvæðan samanburð, þar sem viðmiðið er álitið eftirsóknaverðara

en staðan í dag og hefur þá í för með sér vanlíðun, eða jákvæðan samanburð, þar sem

staðan í dag er álitin eftirsóknaverðari en viðmiðið. Sá samanburður hefði þá í för með

sér vellíðun (Michalos, 1985).

Líta má á vinnugildi sem viðmið um hvort álitið sé eftirsóknarvert að vera í vinnu.

Við leggjum því til sem mögulegt rannsóknarefni, að kannað verði hvort vinnugildi

atvinnulausra ungmenna séu veikari en þeirra sem eru eldri. Mikilvægt er að fá svör við

því hvort þau vilji hreinlega ekki vinna og upplifi þannig ekkert misræmi á milli þess

sem þau vilja gera og stöðunnar sem þau eru í sem atvinnulaus. Einnig er hugsanlegt

að ungmenni stundi mögulega jákvæðan samanburð, þar sem það að vera atvinnulaus

sé álitið eftirsóknaverðara en að vera í vinnu.

Reynist þau skorta viljann til að vinna, þá hlýtur það að skipta máli fyrir

efnahagslega þætti í vestrænum hagkerfum. Veik vinnugildi geta mögulega stuðlað enn

frekar að því að þessi kynslóð týnist sem vinnuafl og ílengist í langtíma-atvinnuleysi með

tilheyrandi hnignun á mannlegum verðmætum, hvatningu og sjálfsvirði þessara

ungmenna (Hanisch, 1999; Winefield, Tiggemann og Winefield, 1992).

Á hinn bóginn er það augljóslega ekki slæmt í sjálfu sér að ungu fólki, sem stendur

frammi fyrir atvinnuleysi, líði vel. Hins vegur getur jákvæður samanburður, þar sem

Page 9: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Arndís Vilhjálmsdóttir og Fanney Þórsdóttir

8

atvinnulausir álíta það eftirsóknarverðara að vera atvinnulaus en að vera í vinnu, að

hafa afleiðingar í efnahagslegu tilliti. Það hlýtur því að vera mikilvægt að svara því af

hverju samband atvinnustöðu og huglægrar vellíðunar sé háð aldri. Getur verið að

félagsleg úrræði séu betur aðgengileg ungu fólki, njóta þau meiri stuðnings en þeir sem

eru eldri? Hafa þau kannski meira sjálfstraust sem hjálpar þeim við takast á við

óörugga framtíð? Ef svo af hverju? Hefur kannski dregið úr efnishyggju? Er yngra fólk

ánægt með minna?

Í grein Clarks og Oswald (1994) er bent á að til þess að stjórnvöld geti með

nokkrum árangri ákveðið til hvaða aðgerða beri að grípa til stuðnings atvinnulausum,

þurfa þau að vera nokkuð örugg um að fólk sé ekki atvinnulaust að yfirlögðu ráði eða í

eigin vilja. Höfundar benda á að þetta sé siðferðisleg spurning, hlaðin tilfinningalegu

gildi. Auðvitað eiga allir að vilja vinna, eða er það ekki?

Þessi spurning hefur sérstakt gildi fyrir Ísland þar sem enginn munur finnst á

huglægri vellíðun eftir atvinnustöðu. Ef aðrar rannsóknir staðfesta okkar niðurstöður

fyrir Ísland, þarf að svara því hvaða máli þetta skiptir okkur Íslendinga. Af hverju er

enginn munur á líðan Íslendinga sem eru í vinnu eða atvinnulausir? Getur verið að svo

vel sé stutt við bakið á atvinnulausum á Íslandi að þeir finni minna fyrir neikvæðum

afleiðingum atvinnuleysis? Er kannski munur á kynslóðum (generational cohorts) hvað

þetta varðar?

Lokaorð

Okkur er ljóst að ofangreindar niðurstöður vekja fleiri spurningar en þær svara. Í

þessari stuttu grein er eigi að síður farin sú leið að spyrja þessara spurninga í þeirri von

að hægt sé að opna umræðuna á grundvelli tölulegra upplýsinga. Svörin við þessum

spurningum fást aðeins með frekari athugunum. Við hvetjum aðra íslenska

rannsakendur að láta sig málið varða og taka upp þráðinn og leita svara við þessum

spurningum svo við fáum betur skilið tilfinningalegt litróf þeirra sem í dag standa

frammi fyrir atvinnuleysi.

Page 10: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

9

Heimildir

Ali, A. J., Falcone, T. og Azim, A. A. (1995). Work ethic in the USA and Canada. Journal of Management Development, 14, 26-34.

Baik, K., Hosseini, M. og Priesmeyer, H. R. (1989). Correlates of psychological distress in involuntary job loss. Psychological Reports, 65, 1227-1233.

Becker, S. O. og Woessmann, L. (2009). Was Weber wrong? A human capital theory of protestant economic history. The Quarterly Journal of Economics, 124, 531-596.

Bouma, G. D. (1973). A critical review of the recent "protestant ethic" research. Journal for the Scientific Study of Religion, 12, 141-155.

Chatman, J. A. (1989). Improving interctional organizational research: A model of person-organization fit. Academy of Management Review, 14, 333-349.

Ciulla, J. B. (2000). The promise and betrayal of modern work. New York: Three Rivers Press.

Clark, A. E. og Oswald, A. J. (1994). Unhappiness and unemployment. Economic Journal, 104, 648-659.

Creed, P. A., Muller, J. og Machin, M. A. (2001). The role of satisfaction with occupational status, neuroticism, financial strain and categories of experience in predicting mental health in the unemployed. Personality and Individual Differences, 30, 435-447.

Diener, E. og Suh, E. (1997). Measuring quality of life: Economic, social, and subjective indicators. Social Indicators Research, 40, 189-216.

Diener, E., Suh, E. M., Lucas, R. E. og Smith, H. L. (1999). Subjective well-being: Three decades of progress. Psychological Bulletin, 125, 276-302.

Erez, M., Kleinbeck, U. og Thierry, H. (2001). Work motivation in the context of globalizing economy. Mahwah, NJ: Erlbaum.

Festinger, L. (1957). A theory of cognitive dissonance. Stanford: Stanford University Press. Furnham, A. (1984). The protestan work ethic: A review of the psycholgical literature.

European Journal of Social Psychology, 17, 87-104. Furnham, A. (1990). The protestant work ethic: The psychology of work related beliefs and

behaviours. London: Routledge. Furnham, A., Masters, J., Bond, M., Payne, M., Heaven, P., Rajamanikam, R. og Van

Daalen, H. (1993). A comparison of protestant work ethic beliefs in thirteen nations. Journal of Social Psychology, 133, 185-197.

GESIS. (e.d.). European Values Study 1981, 1990, 1999/2000, 2008. Sótt 1. janúar 2012 af http://zacat.gesis.org/webview/index.jsp?object=http://zacat.gesis.org/obj/-fCatalog/Catalog5

Grint, K. (1998). The sociology of work (2. útgáfa). Cambridge: Polity Press. Gurría, A. (2012). Youth Employment – A Call for Change. Sótt 5. mars 2012 af

http://www.oecd.org/document/41/0,3746,en_21571361_44315115_49262185_1_1_1_1,00.html

Hagstofa Íslands. (2012). Helstu skilgreiningar og aðferð við vigtun. Sótt 6. maí 2012 af http://www.hagstofa.is/Pages/967

Handy, C. (2001). Tocqueville revisited: The meaning of American prosperity. Harvard Business Review, 79, 57-63.

Hanisch, K. A. (1999). Job loss and unemployment research from 1994 to 1998: A review and recommendations for research and intervention. Journal of Vocational Behavior, 55, 188-220.

Hansen, J. I. C. og Leuty, M. E. (2012). Work values across generations. Journal of Career Assessment, 20, 34-52.

Higgins, E. T. (1987). Self-discrepancy - a theory relating self and affect. Psychological Review, 94, 319-340.

Hogg, M. A. og Terry, D. J. (2001). Social identity theory and organizatinal processes. Í M. A. Hogg og D. J. Terry (ritstjórar), Social identity processes in organizational context (bls. 1-12). Philadelphia, PA: Psychology Press.

Page 11: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Arndís Vilhjálmsdóttir og Fanney Þórsdóttir

10

Hólmfríður Ingvarsdóttir. (2011). „Ef mig vantar stuðning...“: Líðan, reynsla og viðhorf ungra atvinnuleitenda. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsráðgjafardeild.

ILO. (2012). Youth employment. Sótt 5. mars 2012 af http://www.ilo.org/global/topics/youth-employment/lang--en/index.htm

Inceoglu, I., Segers, J. og Bartram, D. (2012). Age-related differences in work motivation. Journal of Occupational and Organizational Psychology, 85(2), 300-329.

Iversen, L. og Sabroe, S. (1988). Participation in a follow up study of health among unemployed and employed people after a company closedown - drop outs and selection bias. Journal of Epidemiology and Community Health, 42, 396-401.

Jackson, P. R. og Warr, P. B. (1984). Unemployment and psychological ill-health - the moderating role of duration and age. Psychological Medicine, 14, 605-614.

Judge, T. A. og Bretz, R. D. (1992). Effects of work values on job choice decisions. Journal of Applied Psychology, 77, 261-271.

Kemp, N. J. og Mercer, A. (1983). Unemployment, disability and rehabilitation centers and their effects on mental-health. Journal of Occupational Psychology, 56(1), 37-48.

Kowske, B. J., Rasch, R. og Wiley, J. (2010). Millennials’ (lack of) attitude problem: An empirical examination of generational effects on work attitudes. Journal of Business and Psychology, 25, 265-279.

Kristof-Brown, A. L., Zimmerman, R. D. og Johnson, E. C. (2005). Consequences of individuals' fit at work: A meta-analysis of person-job, person-organization, person-group, and person-supervisor fit. Personnel Psychology, 58, 281-342.

Lífsgildakönnunin. (e.d.-a). Data and downloads: European Values Study. Sótt 2. apríl 2012 af http://www.europeanvaluesstudy.eu/evs/data-and-downloads/

Lífsgildakönnunin. (e.d.-b). European Values Study. Sótt 31. ágúst 2012 af http://www.europeanvaluesstudy.eu/

Lífsgildakönnunin. (e.d.-c). Extended study description for the integrated -dataset of the 4th EVS wave 2008 (archive study No.: ZA4800) European values study. Sótt 6. ágúst 2012 af http://info1.gesis.org/EVS/Studies/

Mattiasson, I., Lindgarde, F., Nilsson, J. A. og Theorell, T. (1990). Threat of unemployement and cardiovascular risk-factors - longitudinal-study of quality of sleep and serum-cholestrol concentrations in men threatened with redundancy. British Medical Journal, 301, 461-466.

McKee-Ryan, F., Song, Z., Wanberg, C. R. og Kinicki, A. J. (2005). Psychological and physical well-being during unemployment: A meta-analytic study. Journal of Applied Psychology, 90, 53-76.

Michalos, A. C. (1985). Multiple discrepancies theory (MDT). Social Indicators Research, 16, 347-413.

OECD. (2008). Jobs for youth/Des emplois pur les jeunes: Japan. París: OECD Publishing. OECD. (2009). Jobs for youth/Des emplois pour les jeunes: Australia. París: OECD

Publishing. OECD. (2011). OECD Employment Outlook 2011. París: OECD Publishing. OECD. (2012a). Employment Outlook 2012. París: OECD Publishing. OECD. (2012b). OECD Glossary of Statistical Terms - Unemployed – ILO. Sótt 15. ágúst

2012 af http://stats.oecd.org/glossary/detail.asp?ID=2791 Paul, K. I. og Moser, K. (2009). Unemployment impairs mental health: Meta-analyses.

Journal of Vocational Behavior, 74, 264-282. Pinder, C. C. (2008). Work motivation in organizational behavior (2. úgáfa). New York:

Psychology Press. Porter, G. (2010). Work ethic and ethical work: Distortions in the American dream.

Journal of Business Ethic, 96, 535-550. Rosso, B. D., Dekas, K. H. og Wrzesniewski, A. (2010). On the meaning of work: A

theoretical integration and review. Research in Organizational Behavior, 30, 91-127. Sadeh, N. og Karniol, R. (2012). The sense of self-continuity as a resource in adaptive

coping with job loss. Journal of Vocational Behavior, 80, 93-99. Salm, M. (2009). Does job loss cause ill health? Health Economics, 18, 1075-1089.

Page 12: Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun€¦ · jöfnu ekki jafn mikið um hamingjuna eins og óhamingjuna. Hún er endalaus uppspretta sjálfsskilnings okkar og skilnings okkar

Aldur, atvinnustaða og huglæg vellíðun

11

Scarpetta, S., Sonnet, A. og Manfredi, T. (2010). "Rising youth unemployment during the crisis: How to prevent negative long-term consequences on a generation?” (Bindi 106). París: OECD Publishing.

Sherbourne, C. D., Allen, H. og Kamberg, C. (1992). Physical/psychophysiologic symptoms measure. Í A. L. Stewart og J. E. Ware (ritstjórar), Measuring function and well-being: The medical outcomes study approach (bls. 260-276). Durham, NC: Duke University Press.

Stavrova, O., Schlosser, T. og Fetchenhauer, D. (2011). Are the unemployed equally unhappy all around the world? The role of the social norms to work and welfare state provision in 28 OECD countries. Journal of Economic Psychology, 32, 159-171.

Stefán Ólafsson. (1996). Hugarfar og hagvöxtur. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Tolstoy, L. (1873-7/2003). Anna Karenina. London: Penguin Group. Twenge, J. M., Campbell, S. M., Hoffman, B. J. og Lance, C. E. (2010). Generational

differences in work values: Leisure and extrinsic values increasing, social and intrinsic values decreasing. Journal of Management, 36, 1117-1142.

Twenge, J. M., Gentile, B., DeWall, C. N., Ma, D., Lacefield, K. og Schurtz, D. R. (2010). Birth cohort increases in psychopathology among young Americans, 1938-2007: A cross-temporal meta-analysis of the MMPI. Clinical Psychology Review, 30, 145-154.

UN. (2012). UN world youth report. Sótt 3. ágúst af http://www.unworldyouthreport.org/

Vuori, J., Silvonen, J., Vinokur, A. D. og Price, R. H. (2002). The Tyoehoen job search program in Finland: Benefits for the unemployed with risk of depression or discouragement. Journal of Occupational Health Psychology, 7, 5-19.

Wanberg, C. R., Carmichael, H. D. og Downey, R. G. (1999). Satisfaction at last job and unemployment: A new look. Journal of Organizational Behavior, 20, 121-131.

Wanberg, C. R., Kammermeyer-Mueller, J. D. og Shi, K. (2001). Job loss and the experience of unemployment: International research and perspectives. Í N. Anderson, D. S. Ones, H. K. Sinangil og C. Viswesvaran (ritstjórar), International handbook of work and organizational psychology (bls. 253–269). London, United Kingdom: Sage.

Weber, M. (2003). The protestant work ethic and the spirit of capitalism. Mineola: Dover Publications.

Wey Smola, K. og Sutton, C. D. (2002). Generational differences: Revisiting generational work values for the new millennium. Journal of Organizational Behavior, 23, 363-382.

Winefield, A. H., Tiggemann, M. og Winefield, H. R. (1992). Unemployment distress, reasons for job loss and causal attributions for unemployment in young people. Journal of Occupational og Organizational Psychology, 65, 213-218.

Winkelmann, L. og Winkelmann, R. (1998). Why are the unemployed so unhappy? Evidence from panel data. Economica, 65, 1-15.