13
Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnar Nína M. Saviolidis Snjólfur Ólafsson Brynhildur Davíðsdóttir Ritstjórar: Lára Jóhannsdóttir Snjólfur Ólafsson Sveinn Agnarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi flutt á ráðstefnu í apríl 2016 Ritrýnd grein Reykjavík: Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands ISSN 1670-8288 ISBN 978-9979-9933-6-0 www.ibr.hi.is

Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

  • Upload
    others

  • View
    9

  • Download
    0

Embed Size (px)

Citation preview

Page 1: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

Áhrif umhverfisþátta á

íslenskt rekstrarumhverfi -meginlínur dregnar

Nína M. Saviolidis Snjólfur Ólafsson

Brynhildur Davíðsdóttir

Ritstjórar: Lára Jóhannsdóttir Snjólfur Ólafsson Sveinn Agnarsson

Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands:

Erindi flutt á ráðstefnu í apríl 2016 Ritrýnd grein

Reykjavík: Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands ISSN 1670-8288

ISBN 978-9979-9933-6-0

www.ibr.hi.is

Page 2: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

25

ÁHRIF UMHVERFISÞÁTTA Á ÍSLENSKT

REKSTRARUMHVERFI – MEGINLÍNUR DREGNAR

Nína M. Saviolidis, doktorsnemi, Háskóli Íslands Snjólfur Ólafsson, prófessor, Háskóli Íslands

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor, Háskóli Íslands

SAMANTEKT

Breytingar á umhverfisþáttum hafa verið hraðar á undanförnum áratugum og áhyggjur af þeim vaxið stöðugt. Það gengur á auðlindir jarðar samtímis sem jarðarbúum fjölgar og náttúrunni hrakar vegna mengunar og aukins álags á vistkerfi. Þetta allt saman hefur umtalsverð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja um allan heim, meðal annars vegna harðnandi samkeppni um auðlindir og loftslagsbreytinga. Áhrif á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja eru byrjuð að koma í ljós en áhrifin aukast nú mjög hratt. Ein afleiðing af þessu eru háværar kröfur frá almenningi, félagasamtökum, ríkisstjórnum og fleirum um að fyrirtæki axli ábyrgð og breyti ýmsu í rekstri sínum. Þetta á við í einhverjum mæli um flest fyrirtæki, en meira um sum en önnur. Þetta mætti kalla óbein áhrif af umhverfisþáttum. Í greininni er fyrst fræðileg greining þar sem dregin eru fram helstu atriði hnattrænnar þróunar sem tengjast umhverfisþáttum. Síðan er gerð grein fyrir stöðu umhverfismála á Íslandi og meðal annars byggt á rýnihóparannsókn með íslenskum sérfræðingum. Þá eru lögð frumdrög að því að greina helstu þætti í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja sem ætla má að breytist vegna breytinga á umhverfisþáttum.

INNGANGUR Í grein þessari er tekist á við rannsóknarspurninguna: Hver eru líkleg áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhvefi á næstu árum? Beinu áhrifin eru t.d. hlýnun jarðar og mengun. Óbeinu áhrifin eru t.d. verðþróun á hráefnum, breytt regluverk og breyttar kröfur neytenda. Greinin felur bæði í sér fræðilegt yfirlit tengt umhverfismálum og greiningu á meginþáttum varðandi íslenskt rekstrarumhverfi. Áhersla á umhverfisþætti í umræðunni hefur stóraukist síðustu áratugi í takti við stórauknar umhverfislegar áskoranir og vandamál, en OECD (2015) telur að þær séu nú þegar farnar að hamla hagvexti. Þessi áhersla á umhverfismál birtist oft í samhengi við hugtakið sjálfbær þróun (WCED, 1987). Sjálfbær þróun felur í sér þrjá samhangandi þætti, umhverfi, efnahag og samfélag og snýst um að komandi kynslóðir hafi ekki síðri möguleika til að uppfylla eigin þarfir en við, með tilliti til þessara þátta (UN, 2005). Til að það geti orðið þarf að breyta mörgu varðandi umgengni við umhverfið og um það snúast áherslurnar á umhverfisþætti. Sameinuðu þjóðirnar settu árið 2015 fram markmið um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Goals) sem taka við af svokölluðum „Millennium Development Goals” sem giltu frá 2000 til 2015 og sýnir það aukna áherslu á umhverfismál (UN, 2015).

Page 3: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

26 Í næsta kafla verður gerð grein fyrir þróun helstu umhverfisþátta á heimsvísu. Þar á eftir er sjónum beint að umhverfisþáttum á Íslandi. Því næst er í sérstökum kafla dregið fram hvað ætla megi um áhrif umhverfisþátta, bæði á heimsvísu og á Íslandi, á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja, en vissulega er þar margt háð mikilli óvissu. Að lokum eru umræður og ályktanir.

ALÞJÓÐLEG ÞRÓUN UMHVERFISÞÁTTA

Umhvefisbreytingar eru hraðari um þessar mundir en þær hafa verið síðustu aldirnar (Rockström o.fl., 2009). Það gengur á auðlindir jarðar, umhverfinu hrakar víða (Foley o.fl., 2005), líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar og lífverur deyja út (Barnosky o.fl., 2011) á sama tíma og mannkyninu fjölgar og neysla eykst (UN-DESA, 2015). Þetta allt ásamt loftslagsbreytingum (IPCC, 2015) gerir það að verkum að möguleikar á stöðugt bættum lífsgæðum geta verið ýmsum takmörkunum háðir og er raunhæfur möguleiki á að lífsgæði jarðarbúa muni skerðast næstu áratugina vegna hnignunar umhverfisþátta. Stöðugt fleiri telja að nauðsynlegt sé að grípa til róttækra aðgerða, eins og Parísarsamkomulagið, sem gert var í desember 2015, sýnir glöggt (UNFCCC, 2015). Parísarsamkomulagið var sögulegt samkomulag á sviði alþjóða- og umhverfismála þar sem það var í fyrsta skipti sem næstum allar þjóðir í heiminum (196 þjóðir) náðu saman um sameiginlegt markmið sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að reyna að takmarka hlýnun jarðar við 2°C og jafnvel 1.5°C. Um 190 ríki lögðu líka fram svo kölluð „landsmarkmið“ (Intended Nationally Determined Contributions) þar sem kemur fram hvernig og hversu mikið einstök ríki ætla að draga úr losun sinni (UNFCCC, e.d). Þessar breytingar hafa nú þegar mikil bein og óbein áhrif á mörg fyrirtæki. Þar sem umtalsverður efnahagslegur vöxtur er líklegur á næstu árum, á sama tíma og gengur á þá nauðsynlegu þjónustu sem umhverfið veitir (ecosystem services), þ.m.t. auðlindir, má reikna með að áhrifin aukist hratt á næstu árum. Óbeinu áhrifin lýsa sér meðal annars í áherslum á (umhverfislega) sjálfbærni. Umhverfisþættir eru margir og flóknir og þróun þeirra mikilli óvissu háð. Ýmsir hafa dregið fram helstu umhverfisþætti, bæði stöðu þeirra og þróun og má gera það á marga vegu, en við styðjumst hér við nálgun Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA, 2015). Þar eru tengdir saman umhverfisþættir og samfélagsþættir og dregnir fram 11 lykilþættir í hnattrænni meiginþróun (sjá töflu 1), sem munu hafa mikil áhrif á vistkerfi og land sem getur haft margskonar áhrif á matvæli, vatn, orku og efni. Vert er að taka fram að einungis atriði 8-10 í töflunni tengjast umhverfissjálfbærni beint en sökum þess að um samhangandi áskoranir er að ræða (með víxláhrifum og samspili við samfélagslega þætti) þá eru allt þetta þættir sem hafa bein eða óbein áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Tafla 1. Ýmis konar hnattræn meginþróun, eins og hún er greind í SOER 2010 og SOER 2015.1 1 Breyting á þróun íbúafjölda á heimsvísu: Fólksfjöldi jarðar hefur tvöfaldast í rúma sjö

milljarða manna frá árinu1960 og spár sýna að fólki muni halda áfram að fjölga. Þó eru íbúar iðnríkja að eldast og í sumum tilvikum er þeim að fækka. Á hinn bóginn fjölgar fólki hratt í þróunarlöndunum.

2 Í átt að heimi þéttbýlis: Þessa stundina býr um helmingur íbúa jarðarinnar á þéttbýlissvæðum og áætlað er að tveir þriðju búi á slíkum svæðum árið 2050. Þessi áframhaldandi þéttbýlismyndun, með viðeigandi fjárfestingum, getur örvað lausnamiðaða nýsköpun fyrir umhverfisvandamál, en getur einnig aukið auðlindanotkun og mengun.

3 Breyting á sjúkdómabyrði og hætta á heimsfaraldri: Hætta á váhrifum (exposure) nýrra og nýtilkominna sjúkdóma og sjúkdóma sem koma upp aftur ásamt nýjum heimsfaröldrum er tengd fátækt, auknum loftslagsbreytingum og auknum hreyfanleika fólks og vöru.

1 SOER [State of the Environment Report] eru skýrslur sem Umhverfisstofnun Evrópu birtir reglulega um stöðu umhverfismála í Evrópu.

Page 4: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

27 4 Hraðari tæknibreytingar: Ný tækni er að breyta heiminum á róttækan hátt, einkum á nanó-

og lífupplýsingasviði og upplýsingatæknisviði. Slíkt skapar tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum mannkynsins og auka auðlindaöryggi en samhliða skapar það hættu og óvissu.

5 Áframhaldandi efnahagsvöxtur?: Þó að áframhaldandi áhrif frá nýafstaðinni efnahagskreppu hægi á jákvæðni í garð efnahags í Evrópu spá flestar rannsóknir fyrir um eflingu atvinnulífsins á heimsvísu á næstu áratugum – með aukinni neyslu og auðlindanotkun, einkum í Asíu og Rómönsku-Ameríku.

6 Margpóla heimur í sívaxandi mæli: Áður réði frekar lítill hópur landa heimsframleiðslu og -neyslu. Á þessu eru að verða breytingar og áhrifaríkum löndum fjölgar, meðal annars með því að ýmis lönd Asíu hafa aukið áhrif sín umtalsvert. Slíkt hefur áhrif á hnattræn víxltengsl og viðskipti.

7 Aukin samkeppni um auðlindir á heimsvísu: Er hagkerfi vaxa hafa þau tilhneigingu til að nýta fleiri auðlindir, bæði endurnýjanlegar auðlindir og óendurnýjanlegar birgðir af jarðefnum, málmum og jarðefnaeldsneyti. Iðnaðarþróun og breytt neyslumynstur eiga þátt í þessari aukningu á eftirspurn og þar með samkeppni.

8 Vaxandi álag á vistkerfi: Talið er að minnkun á hnattrænum líffræðilegum fjölbreytileika og eyðing á náttúrulegum vistkerfum sökum fólksfjölgunar á heimsvísu og tengd matvæla- og orkuþörf muni halda áfram – slíkt mun hafa áhrif á fátækasta fólk heimsins í þróunarlöndunum.

9 Alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga í vaxandi mæli: Hlýnun loftslagskerfisins er ótvíræð og allt frá 6. áratugnum hefur heimurinn upplifað fáheyrðar breytingar miðað við síðustu áratugi og árþúsund. Er loftslagsbreytingar koma sterkar í ljós er búist við alvarlegum áhrifum þeirra á vistkerfi og þjóðfélög manna (þar á meðal matvælaöryggi, tíðni þurrka og aftakaveður).

10 Aukin umhverfismengun: Um allan heim eru vistkerfi berskjölduð fyrir mikilli mengun hvers samsetning verður sífellt flóknari. Athafnir manna, fólksfjölgun á heimsvísu og breytingar á neyslumynstri eru lykilorsök vaxandi álags á umhverfið.

11 Stjórnunarnálganir gerðar fjölbreyttari: Ósamræmi á milli langtímaáskorana á heimsvísu sem þjóðfélög standa frammi fyrir í sífellt vaxandi mæli og takmarkaðs valds yfirvalda er að skapa eftirspurn eftir fleiri stjórnunarnálgunum þar sem viðskiptalífið og borgaralega samfélagið leikur stærra hlutverk.

Heimild: EEA, 2015, bls. 37. Lacy o.fl. (2012) telja að atvinnulífið þurfi að breyta viðskiptaháttum sínum að mörgu leyti með tilliti til sjálfbærni ef vel á að fara bæði hvað varðar siðferðislega ábyrgð fyrirtækja í umhverfismálum en einnig hvað varðar ávinning fyrirtækja til lengri tíma litið.

ÍSLENSKIR UMHVERFISÞÆTTIR

Í þessum kafla er einkum byggt á rýnihóparannsókn (e. focus group research) sem var gerð á fyrsta ársfjórðungi 2014, en í henni tóku 42 einstaklingar þátt á 8 fundum (Lára Jóhannsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir og Snjólfur Ólafsson, 2014). Viðfangsefni fundanna var umhverfisleg sjálfbærni Íslands og var á hverjum fundi eitt þema til umfjöllunar og sérfræðingar valdir með tilliti til þess, en fyrsti fundurinn var þó almenns eðli. Þemun voru þessi: líffræðilegur fjölbreytileiki, orka, vatn, land: úrgangsmál, land: landnýting, höf og strendur, og loft. Í rannsókn Láru Jóhannsdóttur o.fl. (2014) var settur saman listi yfir sérfræðinga, sem hafa þekkingu á ofantöldum þemum, innan eftirtalinna hópa; stjórnvöld-ríkisvald, stjórnvöld-sveitarfélög, stofnanir, frjáls félagasamtök, fræðasamfélag, atvinnulíf og fagaðilar tengdir atvinnulífinu. Haldinn var einn

Page 5: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

28 rýnihópafundur um hvert þema, en aðferðin var forprófuð með meistaranemum í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Á fundunum voru sérfræðingarnir beðnir um að draga fram mikilvæg atriði, bæði neikvæð og jákvæð, varðandi þemað og þau rædd. Sömuleiðis var horft til framtíðar með áherslu á nauðsynlegar breytingar. Afritun gagna fór fram sumarið 2014 og viðtölin greind í framhaldinu. Notast var við hugkort til að halda utan um þemu og flokka þau, sem og Excel skjöl. Greint hefur verið frá niðurstöðum rýnihóparannsóknarinnar í tveimur greinum. Í greininni Umhverfisleg sjálfbærni Íslands: Staðan og aðkoma stjórnvalda (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2014) er sagt nánar frá rannsókninni og þeim niðurstöðum sem tengjast aðkomu stjórnvalda. Í greininni Mat sérfræðinga á umhverfislegri sjálfbærni Íslands (Lára Jóhannsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir og Snjólfur Ólafsson, 2016) eru dregnar fram meginniðurstöður sérfræðinganna varðandi umhverfislega sjálfbærni Íslands. Í þessum kafla er einkum byggt á síðari greininni. Í öllum rýnihópunum (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016) kom fram að fámenn þjóð í stóru landi sem er auðugt af náttúruauðlindum væri mjög mikilvægt atriði varðandi umhverfismál. Landið er ríkt af ýmsum náttúrugæðum, s.s. fiski, varmaorku, ferskvatni, hreinu lofti, víðernum og óspilltri náttúru, miðað við fámenni. Þetta gerir meðal annars það að verkum að möguleikar til matvælaframleiðslu eru góðir. Þetta veldur því einnig að við erum laus við mörg vandamál sem margar þjóðir glíma við, t.d. skort á landrými eða hreinu vatni og mengun. Í rannsókn Láru Jóhannsdóttur o.fl. (2016) kemur fram að vegna fámennis höfum við getað leyft okkur að ganga illa um umhverfið án þess að það hafi borið mikinn skaða, en það hefur verið að breytast og við höfum orðið að taka okkur á og þurfum að breyta miklu í viðbót á komandi árum. Þar kemur einnig fram að gnótt umhverfisvænnar orku og fámenni í stóru landi geri það að verkum að Íslendingar standa nokkuð vel varðandi umhverfismál, þrátt fyrir að vera eftirbátar margra Evrópuþjóða varðandi umgengni við náttúruna. Ýmsir vísar hafa verið dregnir fram til að bera saman umhverfislega sjálfbærni landa. Einn af þeim er Vistspor (ecological footprint) og samkvæmt honum stendur Ísland sig verst þeirra 154 þjóða sem mælingar voru fyrir, sjá Olafsson o.fl. (2014). Á hinn bóginn stendur Ísland sig frekar vel samkvæmt EPI (Environmental Performance Index), er 13. best af 132 löndum. Þetta sýnir vel að mat á framistöðu landa varðandi sjálfbærni eða umhverfismál er vandasamt og í Olafsson o.fl. (2014) eru færð rök fyrir því að slíkur samanburður sé ákaflega hæpinn. Fámennið veldur því að boðleiðir eru stuttar og hægt að taka ákvarðanir hratt og gera breytingar hratt. Fámennið veldur því líka að rannsóknir eru takmarkaðar og það skortir mikið upp á gagnaöflun og þekkingu á umhverfismálum (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016). Hér er ekki svigrúm til að greina ítarlega frá niðurstöðum varðandi einstaka þemu (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016) en hér eru dregin fram nokkur mikilvæg atriði. Í þessum kafla er ekki fjallað um áhrif á rekstrarumhverfi heldur er það gert í næsta kafla. Líffræðilegur fjölbreytileiki og Land: landnýting

Landnýting og líffræðilegur fjölbreytileiki tengjast sterkt eins og fram kemur í rannsókn Láru Jóhannsdóttur o.fl. (2016). Landeyðing, ofbeit og framræsing lands (skurðir) eru mikilvæg atriði og hafa verið lengi í umræðunni. Á allra síðustu árum hefur mikil fjölgun ferðamanna vegið stöðugt þyngra og snýst það m.a. um ágang á náttúruna og spillingu hennar og einnig um hættur sem steðja að ferðamönnum.

Page 6: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

29 Ýmsar „framandi lífverur”, eru nú orðnar útbreiddar eða fjölmennar á Íslandi og í hafinu og aðrar munu verða það í framtíðinni (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016). Sem dæmi má nefna lúpínu, skógarkerfil, tröllahvönn og grjótkrabba (Umhverfisstofnun, e.d.). Þessar breytingar á umhverfinu geta bæði haft kosti og galla í för með sér og oft er erfitt að sjá hverjar afleiðingarnar verða. Um sumt eru mjög skiptar skoðanir, m.a. notkun lúpínu til landgræðslu. „Hér á landi hefur gróður- og jarðvegseyðing leitt til hnignunar lífríkis á stórum svæðum. Á næstu áratugum er líklegt að tap búsvæða vegna vaxandi þéttbýlismyndunar og mannvirkjagerðar, breytinga á búskaparháttum og landnýtingu, ásamt nýjum landnemum samfara hlýnandi loftslagi, séu þeir þættir sem mest áhrif hafi á líffræðilega fjölbreytni landsins.” (Umhverfisráðuneytið, 2008, bls. 8). Aukin samkeppni um nýtingu á landi hefur þegar orðið og sú samkeppni mun án efa harðna í framtíðinni (OECD, 2014). Orka

Orka er afar mikilvægur umhverfisþáttur, eins og fram kemur í rannsókn Láru Jóhannsdóttur o.fl. (2016) og hefur hún mikið gildi fyrir íslenskt atvinnulíf. Í fyrsta lagi er raforka ódýr og rekstraröryggi mikið. Í öðru lagi er orka til húshitunar ódýr. Í þriðja lagi er raforka (og hitaveita) byggð á endurnýjanlegum auðlindum, en á móti kemur að stærsti hluti hennar er notaður af stóriðju sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum. Í fjórða lagi nota bifreiðar og skip mikið af jarðefnaorku (olíu). Vatn

Vatnsauðlindin er talin ein af stærstu og mikilvægustu auðlindum Íslendinga, en þá er átt við grunnvatn, yfirborðsvatn, jökulár og stöðuvötn sem og aðgengi að hreinu vatni (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016). Í grófum dráttum hefur verið ofgnótt af þessari auðlind, en það er smátt og smátt að breytast og kröfur um betri umgengni við þessa auðlind aukast stöðugt. Land: úrgangur

Úrgangsmál eru langt frá því að vera í góðu lagi á Íslandi, en vegna fámennis í stóru landi með mikið hafsvæði umhverfis það þá hefur það ekki valdið miklum vandamálum hingað til (Lára Jóhannsdóttir, o.fl., 2016). Þetta hefur þó verið að breytast á síðustu áratugum og kröfur um að minnka úrgang, endurnýta og flokka aukast stöðugt. Sama má segja um frárennslismál sem víða eru í ólestri. Höf og strendur Auðlindir hafsins eru ein af forsendum velmegunar á Íslandi og því afar mikilvægur umhverfisþáttur (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016). Stjórn fiskveiða tekur mið af sjálfbærni fiskistofna. Eins og fram kemur í rannsókninni þá vantar mikið upp á rannsóknir og þekkingu á hafinu, hafsbotni og ströndum landsins. Vegna þekkingarskorts og mikilla breytinga á lífríki hafsins (bæði skammtíma og langtíma breytingar) ríkir mikil óvissa um framtíðina. Sveiflur hafa verið miklar í fortíðinni, m.a. á stofnstærð þorsks, síldar, loðnu og rækju, en nú bætist við hlýnun og súrnun sjávar með áhrifum sem erfitt er að sjá fyrir. Kröfur um umhverfisvænar fiskveiðar aukast stöðugt, m.a. varðandi nýtingu afla og mengunar, en reyndar notar íslenski skipaflotinn tiltölulega hreina díselolíu og stendur að því leytinu vel gagnvart auknum kröfum um að vera umhverfisvænn.

Page 7: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

30 Súrnun sjávar, sem stafar af loftslagsbreytingum, er mikið áhyggjuefni að mati þeirra sem þátt tóku í rýnihóparrannsókninni (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016), en áhrif súrnunar eru reyndar lítt þekkt því það ríkir mikil óvissa vegna skorts á nauðsynlegum gögnum sem gerir það erfitt að draga sterkar ályktanir enn sem komið er (Hendriks & Duarte, 2010; IGBP, IOC, SCOR, 2013). Vert er að hafa líka í huga að hlýnun og súrnun sjávar geta haft samverkandi áhrif á lífverur í hafinu en óljóst er hver áhrifin verða (IGBP, IOC, SCOR, 2013). Einnig er hætta á aukinni mengun í hafinu fyrir hendi, m.a. vegna aukinna skipasiglinga umhverfis Ísland (losun kjölvatns og fleira), bæði vegna fjölgunar skemmtiferðaskipa og opnunar siglingaleiðar um Norður Íshafið (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016). Loft

Íslendingar eru að mestu lausir við vandamál tengdum loftgæðum eða loftmengun ef frá er talin svifryksmengun í þéttbýli og mengun vegna losunar brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum (Lára Jóhannsdóttir o.fl., 2016; Olafsson o.fl., 2014). Hins vegar er líklegt að alþjóðlegar kröfur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda muni hafa mikil áhrif hér á landi. Losun gróðurhúsalofttegunda er mikil frá stóriðju (42%), samgöngum og fiskveiðum (Umhverfisstofnun, 2015). Sömuleiðis er það fyrst á síðustu árum, eftir gangsetningu Hellisheiðarvirkjunar, sem mengun af völdum jarðvarmavirkjana hefur verið vandamál (Olafsson o.fl., 2014).

ÁHRIF Á ÍSLENSKT REKSTRARUMHVERFI

Hér er gerð tilraun til að draga fram meginlínur varðandi áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi. Stuðst er við efnið í síðustu tveimur köflum, sem og þekkingu greinarhöfunda, og vísað í heimildir eftir atvikum. Óvissa um framtíðina er mikil og hér er bæði reynt að draga fram það sem má telja sem nokkuð víst og atriði sem áhugavert væri að rannsaka nánar. Reikna má með að áhrif umhverfisþátta verði einhver á öll fyrirtæki, m.a. aukin krafa um flokkun úrgangs og aukin krafa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Áhrifin verða umtalsverð á ýmsa hópa fyrirtækja, m.a. háð því í hvaða grein þau starfa og hvers eðlis starfsemin er. Við byrjum á að draga fram þætti sem líta má á sem bein áhrif umhverfisþátta. Því næst fjöllum við um þá hvata sem stjórnendur fyrirtækja hafa til að gera breytingar í umhverfislegu tilliti en í því felst greining á óbeinum áhrifum. Þetta tvennt er gert með íslenskt atvinnulíf í huga, en í þriðja undirkaflanum ræðum við stuttlega þrjár mikilvægar atvinnugreinar. Bein áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi

Aukin samkeppni um auðlindir, bæði á heimsvísu og á Íslandi, mun hafa fjölbreytt áhrif á rekstarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Hvaða erlendar auðlindir það verða er erfitt að sjá fyrir, en varðandi Ísland þá er t.d. samkeppni um nýtingu landsins nú þegar orðin mikil og flókin. Þar er meðal annars átt við nýtingu orkuauðlinda, nýtingu (notkun) landsins í sambandi við ferðaþjónustu og innviði (OECD, 2014). Vaxandi álag á vistkerfi er nátengt samkeppni um auðlindina land, en felur líka margt annað í sér. Kröfur um betri umgengni um auðlindina vatn geta haft alls konar áhrif á atvinnurekstur, m.a. tengdan ferðaþjónustu. Áhrif á ferðaþjónustu blasa við t.d. í vaxandi kröfum til ferðaþjónustunnar frá erlendum og innlendum ferðamönnun um að axla ábyrgð á umhverfismálum með gæðastjórnunarkerfum eins og Vakanum (Vakinn, e.d.).

Page 8: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

31 Loftslagsbreytingar (losun gróðurhúsalofttegunda), stórauknar áhyggjur af þeim og skýrar viðhorfsbreytingar eru líklegar til að hafa mikil áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Kröfur um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðkomu fyrirtækja að úrlausn vandamálsins verða stöðugt meiri (Jóhannsdottir og McInerney, 2016; McInerney og Johannsdottir, 2016). Hinsvegar er ekki ljóst hvernig áhrifin verða á einstaka atvinnugreinar og einstök fyrirtæki. Umhverfismengun getur haft margvísleg áhrif á íslensk fyrirtæki. Súrnun sjávar og mengun hans eru til að mynda áhyggjuefni. Kröfur um að draga úr mengun eru að aukast og munu m.a. leiða af sér aukinn kostnað hjá mörgum fyrirtækjum, en reyndar felast oft tækifæri til sparnaðar í því að draga úr mengun og sóun. Óbein áhrif - helstu hvatar

Ein leið til að fjalla skipulega um óbeinu áhrifin er að fjalla um helstu hvata sem virka á stjórnendur fyrirtækja og er sú leið farin hér. Ýmsir hafa dregið fram og flokkað hvata varðandi samfélagsábyrgð, sem í einföldu máli snýst um að fyrirtæki taki ábyrgð á áhrifum af starfsemi sinni á samfélagið varðandi umhverfi, samfélag og efnahag (Geirþrúður María Kjartansdóttir og Lára Jóhannsdóttir, 2015; Hoffman, 2000). Eðli málsins samkvæmt eru í grófum dráttum sömu hvatar sem tengjast samfélagsábyrgð almennt og umhverfisþáttum. Við kjósum hér að flokka hvata í fjóra flokka, þar sem fyrsti flokkurinn er innri hvatar, en ytri hvatar eru settir í þrjá flokka, þvingandi hvata, markaðshvata og samfélagshvata (Hoffman, 2000). Innri hvatar

Vitundarvakning er á Íslandi eins og annars staðar, m.a. hjá íslenskum stjórnendum. Þeir vilja standa sig vel, hvort sem áhersla þeirra er á samfélagsábyrgð eða umhverfismál. Hröð fjölgun fyrirtækja í Festu, sem er miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi, er ákveðin vísbending um það (Festa, 2015). Breytt viðhorf í þjóðfélaginu enduspeglast í breyttu viðhorfi meðal stjórnenda fyrirtækja, en breytingarnar geta bæði átt rætur sínar að rekja til innri hvata eða ytri þrýstings. Lýsandi fyrir þetta er að þann 16. nóvember 2015 skrifuðu 103 fyrirtæki og stofnanir undir loftslagsyfirlýsingu þar sem segir meðal annars: „Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. ... Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra. Á Íslandi er ein helsta áskorunin mengandi samgöngur og losun úrgangs. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að: draga úr losun gróðurhúsalofttegunda; minnka myndun úrgangs; mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.” (Festa, 2015). Þvingandi hvatar (lög, reglur og fríverslunarsamningar)

Hér falla undir lög og reglur (reglugerðir), alþjóðleg lög, alþjóðasamningar og fríverslunarsamningar (Hoffman, 2000). Skattar og gjöld falla einnig hér undir. Fyrir flest íslensk fyrirtæki eru það íslensk lög og reglugerðir sem skipta mestu máli, en þau byggja að stærstum hluta á lögum og reglum Evrópusambandsins (tilskipunum), en Íslendingum ber að innleiða þær þar sem Ísland er aðili að EES samningnum. Reyndar er það svo að Íslendingar eru töluvert á eftir flestum öðrum þjóðum að innleiða þessi lög og reglur (OECD, 2014), en því fylgir reyndar sá kostur að sjá má fyrir, að töluverðu leyti, hvaða breytingar verða gerðar í íslensku regluverki nokkur misseri fram í tímann, eftir því sem innleiðingunni miðar áfram.

Page 9: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

32 Markaðshvatar Ætla má að fyrir íslensk fyrirtæki snúist markaðshvatar einkum um hráefni og þá einkum íslenskar auðlindir. Mörg íslensk fyrirtæki nýta auðlindir hafsins, einkum fisk, önnur sjávardýr og þang/þörunga, afrakstur landsins (einkum bændur) og orku (vatnsorku og jarðvarma). Sveiflur í afla hafa verið miklar og verða áfram, en við þær bætist þróun sem er frekar ný af nálinni. Þar vegur hlýnun og súrnun sjávar þungt. Ljóst er að áhrifin verða umtalsverð en mjög óvíst og óljóst hver þau á endanum verða. Ísland flytur líka inn hráefni og vörur. Ef hráefnisskortur verður í einhverjum flokki erlendis mun það hafa áhrif á fyrirtæki hér. Hér spila líka ofsaveður og þurrkar inní sem og sýkingar og skordýratengd áhrif í matvælaframleiðslu sem berast lengra og lengra með aukinni hlýnun og fólksflutningum o.s.frv. Ferðaþjónustan byggist að þó nokkru leyti á náttúru íslands, sem má telja sem auðlind, enda þó nýting auðlindarinnar felist ekki í að taka af henni. Vegna mikillar fjölgunar ferðamanna og þolmarka náttúrunnar er ljóst að þessi þáttur rekstrarumhvefisins muni breytast töluvert á næstunni (Jóhannesson, Huijbens og Sharpley, 2010). Varðandi þrýsting frá viðskiptavinum þá eru aðstæður ólíkar hjá fyrirtækjum, m.a. eftir því hvort viðskiptavinirnir eru einstaklingar eða fyrirtæki. Almennt séð setja íslenskir einstaklingar lítinn þrýsting á fyrirtæki varðandi umhverfismál, miðað við það sem gerist í mörgum nágrannalöndum (Tema Nord, 2007; Pezzini og Garðarsdóttir, 2012), en það virðist þó vera að breytast. Það er hins vegar orðið nokkuð algengt að fyrirtæki geri kröfu til birgja sinna varðandi umhverfismál, m.a. um að vörur séu umhverfisvænar eða að þau séu með umhverfisvottanir á borð við ISO14001 og Norræna Svaninn. Samfélagshvatar

Samfélagshvatar stafa frá fjölmörgum aðilum, meðal annars félagasamtökum, fjölmiðlum, dómstólum, fræðimönnum og listamönnum (Hoffman, 2000). Þessir hvatar hafa áhrif á almenningsálit, geta breytt viðhorfum (norms) og breytt því hvernig almenningur lítur á umhverfismál og þátt fyrirtækja í því að vernda umhverfið. Almenningsálitið getur svo haft áhrif á ímynd fyrirtækja og stefnu stjórnvalda (Hoffman, 2000). Elstu náttúrverndarsamtök á Íslandi eru Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands. Þessi samtök hafa í gegnum tíðina gagnrýnt stjórnvöld, atvinnugreinar og einstök fyrirtæki. Þau hafa m.a. gagnrýnt orkuiðnað (Guðmundur Ingi Guðbrandsson, 2014; Landvernd, 2001), hvalveiðar (Árni Finnsson, 2015) og ferðaþjónustu (Halla Harðardóttir, 2015). Nýlega hafa verið stofnuð samtök sem beina sjónum sínum að fyrirtækjum, m.a. Vakandi, Slow Food Iceland og Ungir umhverfissinnar. Á Facebook eru ýmsir hópar sem vinna að því að breyta viðhorfum varðandi umhverfismál, m.a. Bylting gegn umbúðum, Mínimalistar og Ruslarar. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á umfjöllun um umhverfismál í íslenskum fjölmiðlum eða möguleg áhrif þeirra á stefnu stjórnvalda. Það má samt telja víst að fjölmiðlar geta haft mikil áhrif eins og hefur sést þegar þeir hafa fjallað um velferð dýra (Morgunblaðið, 2015). Nokkrir listamenn hafa verið verið virkir í baráttu fyrir íslenskri náttúru og barist fyrir ýmsum málum. Má þar nefna Andra Snæ Magnason, Björk Guðmundsdóttur og Ómar Ragnarsson sem hafa barist fyrir ýmsum almennum málum, einkum gegn virkjunum og stóriðju, en einnig fyrir einstaka framkvæmdum svo sem Kárahnjúkavirkjun og vegaframkvæmdum í Gálgahrauni.

Page 10: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

33 Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á íslenskum samtökum sem tengjast umhverfinu, m.a. hver áhrif þeirra hafa verið. Sömuleiðis eru fáar rannsóknir til um samfélagshvata á Íslandi almennt og því er það vænlegt rannsóknarefni. Áhrif umhverfisþátta á einstakar atvinnugreinar Helstu áhrif umhverfisþátta á sjávarútveg eru væntanlega ástand hafsins, fiskveiðistjórnun, lög og reglur og markaðir. Lög og reglur munu eflaust gera stöðugt meiri kröfur um umhverfisvænar veiðiaðferðir, m.a. sem fela í sér minni kolefnalosun og betri nýtingu sjávarafla. Mögulegar breytingar á næstu árum tengdar umhverfismálum er hlýnun sjávar sem mun m.a. valda breytingum á því hvaða lífverur blómsta í hafinu, súrnun sjávar og mengun sem gætu valdið miklum breytingum á næstu áratugum en erfitt er að sjá fyrir hverjar þær verða. Varðandi ferðaþjónustu þá hefur fjölgun ferðamanna leitt til mikils ágangs á náttúruna. Þetta gæti m.a. leitt til aukinnar gjaldtöku og takmarkana á hvert ferðamenn mega fara og hve margir. Auk þess gætu umhverfisþættir erlendis, m.a. þeir sem hafa áhrif á kostnað við ferðalög (t.d. í tengslum við losunarheimildir), haft áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Rekstrarumhverfi orkugeirans hefur breyst verulega á síðustu áratugum. Alla tuttugustu öldina voru orkuauðlindir landsins vannýttar. Þetta hefur breyst hratt á 21. öldinni og núna fer að verða erfiðara og erfiðara að fá leyfi til að bæta fleiri virkjunarkostum við, einkum vegna umhverfissjónarmiða. Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða byggir á upplýsingaöflun og setur ákveðinn ramma, í gegnum lög, ferli og aðferðafræði, sem ætlað er að leysa ágreining á milli hagsmunahópa um nýtingu landsins (Rammaáætlun, e.d.). Þrátt fyrir það eru enn pólítisk átök varðandi virkjunarkosti og munu aukast í framtíðinni (OECD, 2014). Samhliða þessu hafa kröfur um að framkvæmdir séu umhverfisvænar líka aukist.

UMRÆÐA Í þessari grein er gerð tilraun til að draga upp meginlínur varðandi áhrif umhverfisþátta, bæði beinna og óbeinna, og hver líkleg áhrif þeirra verða á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja á næstu árum. Niðurstöður greinarinnar eru almenns eðlis og að hluta til niðurstöður um hvað væri áhugavert að rannsaka þar sem mikið vantar upp á rannsóknir á umhverfisþáttum og áhrifum þeirra á rekstraumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Að hluta til eru niðurstöður kynntar í fræðilegu yfirliti, en eðli málsins samkvæmt er hér ekki um ítarlegt eða tæmandi yfirlit að ræða. Segja má að greinin skilgreini beinagrind sem fær smám saman meira kjöt á beinin við frekari rannsóknir höfunda og annarra. Einnig má líta svo á að sérfræðiálit komi fram víða í greininni og þá sérstaklega í kaflanum um áhrif á íslenskt rekstrarumhverfi. Það er ljóst að umhverfisþættir hafa nú þegar haft áhrif á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og þar með á rekstur þeirra, en allt bendir til að þessi áhrif verði mun meiri á næstu árum. Margar meginlínur eru nokkuð skýrar, t.d. að fyrirtæki þurfa að huga að áhrifum flestra þátta í starfsemi sinni á umhverfið. Fyrirtæki munu þurfa að nýta aðföng/hráefni betur og minnka úrgang og flokka í auknum mæli, en reyndar hafa mörg þeirra stigið skref í þá átt, m.a. sem lið í því að verða samfélagslega ábyrgari. Krafa um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hefur stóraukist á undanförnum mánuðum, en það má meðal annars sjá af því að 16. nóvember 2015 skrifuðu 103 fyrirtæki og stofnanir undir loftslagsyfirlýsingu (Festa, 2015). Sú hnattræna þróun sem rakin er í töflu 1 mun valda miklum breytingum í alþjóðlegu samhengi, sumar má sjá fyrir í einhverjum mæli en aðrar eru ófyrirséðar. Harðari samkeppni um ýmis hráefni

Page 11: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

34 og önnur aðföng mun t.d. leiða af sér verðbreytingar og breytt lagaumhverfi. Ýmsir alþjóðasamningar munu breytast og aðrir bætast við sem munu m.a. gera meiri kröfur til atvinnulífsins um að starfsemin taki tillit til umhverfisins. Parísarsamkomulagið (UNFCCC, 2015), hröð fjölgun aðila að Festu (Festa, 2015) og margt annað sýnir að þrýstingur á fyrirtæki um að vera ábyrg gagnvart samfélagi og umhverfi eykst hratt og mun halda áfram að gera það. Þessi þrýstingur verður ólíkur á ólíkar atvinnugreinar enda þótt flestar muni finna fyrir breytingum, m.a. vegna kröfu um minni notkun aðfanga og losun úrgangs. Atvinnugreinar sem losa mikið af kolefni, m.a. fiskveiðar, flutningar og ýmiss iðnaður, geta reiknað með að rekstrarumhverfið breytist hratt og mikið. Fyrirtæki í ferðaþjónustu og önnur fyrirtæki sem byggja starfsemina í miklum mæli á íslenskri náttúru geta líka vænst þess að rekstrarskilyrði breytist hratt og mikið. Átök og heitar umræður varðandi virkjanakosti munu líka halda áfram að vera áberandi í umræðunni og því ljóst að kröfurnar til orkugeirans mun ekki linna á næstunni (OECD, 2014). Þörfin fyrir rannsóknir á breytingum á íslensku rekstrarumhverfi fyrirtækja af völdum umhverfisáhrifa er mikil vegna þess að áhrifin munu verða umtalsverð en óljóst að mörgu leyti hvernig þau verða. Reyndar eru breytingarnar ekki bara þess eðlis að þær hafi áhrif á rekstur fyrirtækja heldur er líka nauðsynlegt að fyrirtæki taki virkan þátt í því, með stjórnvöldum og almenningi, að ná tökum á þeirri ískyggilegu þróun sem á sér stað í umhverfismálum, sérstaklega vegna loftslagsbreytingum. Svo er það líka þannig að í þessum breytingum geta einnig falist tækifæri fyrir fyrirtæki.

HEIMILDIR

Árni Finnsson (2015, 18 mars). Mat á heildarhagsmunum hvalveiða - 34. mál, þingsályktunartillaga,

144. löggjafarþing 2014— 2015. Sótt 12. apríl 2016 af https://www.althingi.is/altext/erindi/144/ 144-1605.pdf.

Barnosky A. D., Matzke, N., Tomiya, S., Wogan, G. O. U., Swartz, B., Quental, T. B., ... Ferrer, E. (2011). Has the Earth’s sixth mass extinction already arrived? Nature, 7336(471), 1-19. doi: 10.1038/nature09678.

EEA [European Environment Agency - Umhverfisstofnun Evrópu]. (2015). Umhverfismál Evrópu: ástand og horfur2015. Samantektarskýrsla. Sótt 10. janúar 2016 af: https://www.umhverfis raduneyti.is/media/PDF_skrar/SOER-Synthesis2015-IS-1stlayout.pdf.

Festa. (2015, 23. september). Félögum fjölgar í Festu. Sótt 14. apríl af: http://festasamfelagsabyrgd.is/frettir/felogum-fjolgar-i-festu.

Festa. (2015). Yfir eitthundrað fyrirtæki skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu. Sótt 26. febrúar 2016 af: http://festasamfelagsabyrgd.is/frettir/fjoldi-fyrirtaekja-skrifar-undir-loftslagsyfirlysingu.

Foley, J. A., De Fries, R., Asner, G. P., Barford, C., Bonan, C., Carpenter, S. R., ... Snyder, P. K. (2005). Global consequences of land use. Science, 309(570), 570-574. doi: 10.1126/science. 1111772.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson (2014, 19. mars). Gagnrýna flokkun Hvammsvírkjunar í nýtingarflokk. Sótt 14. apríl 2016 af http://landvernd.is/sidur/Gagnryna-flokkun-Hvammsvirkjunar-i-nytingarflokk.

Page 12: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

35 Geirþrúður María Kjartansdóttir og Lára Jóhannsdóttir. (2015). Álit, upplifun og framtíðarsýn

ráðgjafa á hvata íslenskra fyrirtækja til aðgerða á sviði samfélagsábyrgðar og umhverfismála. Í Ingi Rúnar Eðvarðsson (ritstjóri), Rannsóknir í félagsvísindum XVI. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Halla Harðardóttir (2015, 9. október). Hvernig ferðamennsku viljum við á hálendinu? Fréttatíminn. Sótt 12. apríl 2016 af: http://www.frettatiminn.is/hvernig-ferdamennsku-viljum-vid-halendinu/.

Hendriks, I. E., & Duarte, C. M. (2010). Ocean acidification: Separating evidence from judgment: A reply to Dupont et al. Estuarine, Coastal and Shelf Science 89, 186 – 190. doi: 10.1016/j.ecss.2010.06.013.

Hoffman, A. J. (2000). Competitive environmental strategy: A guide to the changing business landscape. Washington, DC: Island Press.

IGBP, IOC, SCOR (2013). Ocean Acidification Summary for Policymakers – Third Symposium on the Ocean in a High-CO2 World. International Geosphere-Biosphere Programme, Stockholm, Sweden.

IPCC [Intergovernmental Panel on Climate Change]. (2014). Climate Change 2014: Synthesis Report. Contribution of Working Groups I, II and III to the Fifth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change [Core Writing Team, R.K. Pachauri and L.A. Meyer (eds.)]. IPCC, Geneva, Switzerland, 151 pp.

Jóhannesson, G. T., Huijbens, E. H. og Sharpley, R. (2010). Icelandic tourism: past directions—future challenges. Tourism Geographies, 12(2), 278-301. doi: 10.1080/14616680903493670.

Johannsdottir, L., & McInerney, C. (2016). Calls for Carbon Markets at COP21: a conference report. Journal of Cleaner Production, 1-3. doi:10.1016/j.jclepro.2016.02.094.

Lacy, P., Blowfield, M., & Hayward, R. (2012). Finding ‘true north’ for sustainable business. (Working paper, 12-02). Sótt 21. janúar af: http://www.smithschool.ox.ac.uk/library/working-papers/workingpaper%2012-02.pdf.

Landvernd (2001). Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði: Umfjöllun um mat á afleiðingum; Athugasemdir rýna Landverndar og samantekt Kristínar Einarsdóttur. Sótt 16. apríl af: http://www.felagshyggja.net/Felagar/Landvernd2.pdf.

Lára Jóhannsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir og Snjólfur Ólafsson (2014). Umhverfisleg sjálfbærni Íslands: Staðan og aðkoma stjórnvalda. Stjórnmál og Stjórnsýsla,10(2), 445-472.

Lára Jóhannsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir og Snjólfur Ólafsson (2016). Mat sérfræðinga á umhverfislegri sjálfbærni Íslands. Óbirt grein, send til birtingar í Náttúrufræðinginn.

McInerney, C., & Johannsdottir, L. (2016). Lima Paris Action Agenda: Focus on Private Finance – note from COP21. Journal of Cleaner Production, 1-4. doi:10.1016/j.jclepro.2016.02.116.

Morgunblaðið. (2015, oktober 29). Dagsektir geti numið 100.000kr. Sótt 12. febrúar 2016 af http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/29/dagsektir_geti_numid_100_000_kr/.

OECD [Organization for Economic Cooperation and Development]. (2015). Post 2015: Global and local environmental sustainability, development and growth. Element 4, paper 1. Sótt 10. febrúar 2016 af: http://www.oecd.org/dac/post-2015.htm.

OECD [Organization for Economic Cooperation and Development]. (2014). Environmental performance reviews: Iceland 2014. Sótt 10. febrúar 2016 af: http://www.oecd.org/environ ment/iceland2014.htm

Page 13: Áhrif umhverfisþátta á íslenskt rekstrarumhverfi - meginlínur dregnaribr.hi.is/sites/ibr.hi.is/files/vorradstefna/2016/ahrif_umhverfisthatta.pdf · beint að umhverfisþáttum

36 Olafsson, S., Cook, D., Davidsdottir, B., & Johannsdottir, L. (2014). Measuring countries׳

environmental sustainability performance – A review and case study of Iceland. Renewable and Sustainable Energy Reviews, 39, 934-948. doi:10.1016/j.rser.2014.07.101.

Pezzini, G., & Garðarsdóttir, R. B. (2012). Ethical consumption in Iceland: Results from an exploratory study in consumer awareness. Proceedings from Þjóðarspegillinn: Annual conference in the Social Sciences. University of Iceland: Reykjavík. Sótt 15. febrúar 2016 af: http://hdl.handle.net/1946/13325.

Rockström, J., Steffen,W., Noone, K., Persson, Å., Chapin, F. S. III., Lambin, E., . . . Foley, J. A. (2009). Planetary boundaries: Exploring the safe operating space for humanity. Ecology and Society, 14(2). Sótt 15. febrúar 2016 af: http://www.ecologyandsociety.org/vol14/iss2/art32/

Rammaáætlun (e.d). Sótt 13 apríl 2016 af http://www.ramma.is/rammaaaetlun/. Snjólfur Ólafsson, Brynhildur Davíðsdóttir og Lára Jóhannsdóttir (2014). Samfélagsábyrgð íslenskra

fyrirtækja. Í Auður Hermannsdóttir, Ester Gústavsdóttir og Kári Kristinsson (ritstjórnar). Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands.

TemaNord. (2007). Etisk forbrug i Norden. Hvordan engageres forbrugerne i etisk forbrug? Copenhagen: Nordisk Ministerråd.

Vakinn. (e.d.). Um Vakann. Sótt 22. febrúar 2016 af: http://www.vakinn.is/is/um-vakann. United Nations (2005). General Assembly resolution A/60/1. World summit outcome, (15

September 2005). Sótt 13 apríl 2016 af: http://data.unaids.org/Topics/UniversalAccess/ worldsummitoutcome_resolution_24oct2005_en.pdf

UN [United Nations]. (2015). General Assembly resolution 70/1. Transforming our world: the 2030 Agenda for sustainable development, A/RES/70/1 (25 September 2015). Sótt 22. febrúar 2016 af: undocs.org/A/RES/70/1

UN-DESA [United Nations- Department of Economic and Social Affairs]. (2015). World population prospects: Key findings and advance tables. 2015 Revision. Sótt 22. febrúar 2016 af: http://esa.un.org/unpd/wpp/Publications/Files/Key_Findings_WPP_2015.pdf.

UNFCCC [United Nations Framwork Convention on Climate Change]. (2015). Adoption of the Paris agreement. Sótt 22. febrúar 2016 af: https://unfccc.int/resource/docs/2015/cop21/eng/l09r01.pdf.

UNFCCC [United Nations Framwork Convention on Climate Change]. (e.d). INDCs as communicated by Parties. Sótt 22. febrúar 2016 af: http://www4.unfccc.int/submissions/indc/ Submission%20Pages/submissions.aspx.

WCED [World Commission on Environment and Development]. (1987). Our Common Future. Sótt 15. janúar 2016 af: http://www.un-documents.net/our-common-future.pdf.