12
9. tbl. nóvember 2015 Tíðindi Samband íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi 9. tbl. 2015

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Tíðindi af vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Citation preview

Page 1: Tíðindi 9. tbl. 2015

9. tbl.

nóvember

2015

TíðindiSamband íslenskra sveitarfélaga

Page 2: Tíðindi 9. tbl. 2015

2

TÍÐINDI

Skólaþing sveitarfélaga 2015 var haldið á Hilton Reykjavík Nordica mánudaginn 2. nóvember sl. Alls sátu um 250 þátttakendur þingið. Að þessu sinni var áhersla skólaþings á tvo meginþætti: Læsi og vinnumat grunnskólakennara. Þinggestir unnu í umræðuhópum með spurningar tengdum hvorum þætti fyrir sig. Úrvinnsla umræðna fer nú fram og munu niðurstöður um læsisþáttinn m.a. verða kynntar Menntamálastofnun og læsisráðgjöfum þar. Niðurstöður umræðna um vinnumat

grunnskólakennara mun bæði nýtast verkefnisstjórn um vinnumat við áframhaldandi vinnu við innleiðingu þess og samninganefnd FG og SNS við undirbúning og mat vegna kjaraviðræðna á næsta ári.

Þingið var sent út beint á netinu en öll erindi og upptökur eru aðgengilegar inni á vefsíðu skólaþingsins, www.samband.is/skolathing-2015.

Á síðunni má sjá svipmyndir frá þinginu.

Skólaþing sveitarfélaga 2015

Page 3: Tíðindi 9. tbl. 2015

3

TÍÐINDI

Þriðjudaginn 3. nóvember var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf um úttekt á menntun án aðgreiningar af hálfu fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra og Skólameistarafélags Íslands.

Á sama tíma var undirritaður samstarfssamningur um framkvæmd úttektarinnar af Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra, Cor J.W. Meijer framkvæmdastjóra og Per Ch Gunnvall stjórnarformanni Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar.

Markmið úttektarinnar er að styðja við ákvarðanatöku á innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi. Áhersla verður lögð á að kanna hversu árangursrík innleiðing á menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, meðal annars í samanburði við önnur lönd. Úttektin nær til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs. Rýnt verður einnig í fjármögnun vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttekin nær til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, þ.e. til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla,

skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta. Ráðgert er að úttekin fari fram frá nóvember 2015 til ársloka 2016.

Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir gerir úttektina í samvinnu við ráðuneytið, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóla, landssamtök foreldra, Skólameistarafélag Íslands og aðra sem málið varðar.

• Viljayfirlýsing, íslenska• Viljayfirlýsing, enska• Verkefnislýsing

Evrópumiðstöðvarinnar• Nánari upplýsingar

Viljayfirlýsing um menntun án aðgreiningar

Page 4: Tíðindi 9. tbl. 2015

4

TÍÐINDI

Rekstur leikskóla 2014Á árinu 2014 nam rekstrarkostnaður leikskóla 31,6 ma.kr. Launakostnaður í leikskólum sveitarfélaga nam um 77% af heildarrekstrarkostnaði þeirra. Athygli er vakin á því að innri leiga er ekki meðtalin í þessum tölum. Tekjur fyrir veitta þjónustu í leikskólunum voru rúmir 5 ma.kr. á árinu, þannig að nettókostnaður við rekstur leikskólanna var rúmir 26 ma.kr. Það er um 13% af skatttekjum sveitarfélaganna. Í töflu 1. er birt sundurliðað yfirlit um heildarkostnað við rekstur leikskóla landsins.

Tafla 1. Rekstrarkostnaður leikskóla 2014

Leikskólar sveitarfélaga

framlög til sjálfstætt starfandi leikskóla

Leikskólar alls

Þjónustutekjur og aðrar tekjur -5.221.710 -148 -5.221.858

Tekjur alls -5.221.710 -148 -5.221.858

Laun og launatengd gjöld 23.526.140 11.885 23.538.025

Annar rekstrarkostnaður 3.586.419 4.242.354 8.054.187

Kostnaður alls (brúttó) 27.112.559 4.254.239 31.592.212

Rekstrarútgjöld (nettó) 21.890.849 4.254.091 26.370.354

Skýring: Allar tölur í þús.kr. Innri leiga ekki meðtalin.

Kostnaður vegna innri leigu leikskóla var 3,4 ma.kr. árið 2014. Samanlagt er því heildarkostnaður vegna leikskóla árið 2014 35 ma.kr. Inn í þeirri tölu er einnig talinn með kostnaður vegna sjálfstætt starfandi skóla.

Tafla 2. Yfirlit yfir stöðugildi og rekstrarútgjöld 2012–2014

Fjöldi heilsdagsígilda

Fjöldi stöðugilda við uppeldis- og menntunarstörf

alls

Nettó rekstrarkostnaður -

innri leiga

2012 19.618 4.567 24.503.467

2013 19.900 4.705 25.184.737

2014 20.037 4.883 26.370.354

Breyting 12–14 419 316 1.866.887

% breyting 12–14 2% 7% 8%

Skýring: Rekstrartölur í þús.kr. og staðvirtar á verðlagi ársins 2014.

Í töflu 2 kemur fram yfirlit um þróunina í fjölda nemenda og stöðugildasið skólana.

Sé litið til þróunar frá 2012 má sjá að heilsdagsígildum leikskólabarna hefur fjölgað lítillega eða um 2%, stöðugildum alls hefur fjölgað um 7% eða 280 og rekstrarkostnaður aukist að raungildi um 1,8 ma.kr. eða 8%.

Page 5: Tíðindi 9. tbl. 2015

5

TÍÐINDI

Tafla 3. Rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi eftir stærð skóla

Stærð skóla HDIG

Stöðugildi við menntun og

uppeldiStöðugildi

alls

Nettó rekstrar-kostnaður

(- innri leiga)/HDÍG

Launa-kostnaður/

HDÍG

< 31 648,9 185,3 203,5 1.529 1.546

31 - 60 1.628,9 426,3 470,7 1.377 1.454

61 - 90 4.542,5 1.098,0 1.201,6 1.319 1.401

91 - 120 5.354,6 1.322,7 1.429,7 1.295 1.394

121 > 4.707,6 1.138,9 1.216,1 1.249 1.345

Leikskólar sveitarfélaga samtals 16.882,4 4.171,3 4.521,7 1.305 1.394

Skýring: Rekstrartölur í þús.kr. Eingöngu leikskólar sveitarfélaga.

Í töflu 3. kemur fram yfirlit um fjölda heilsdagsígilda, fjölda stöðugilda og rekstrarniðurstöður þar sem leikskólar sveitarfélaga eru flokkaðir eftir fjölda heilsdagsígilda.

Nettó rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi í leikskólum sveitarfélaga var um 1.305 þús. kr. árið 2014 þegar búið er að draga innri leigu frá. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er 1.345 þús.kr. á hvern nemenda. Tafla 3 sýnir glöggt hve rekstrarkostnaður á heilsdagsígildi leikskólabarna er misjafn eftir stærð leikskóla.

Page 6: Tíðindi 9. tbl. 2015

6

TÍÐINDI

Efnahagsreikningur

Efnahagsreikningur felur í sér yfirlit um eignir sveitarfélagsins og skuldir þess. Mismunur á eignum og skuldum er eigið fé (höfuðstóll).

VeltufjármunirÁ eignahlið efnahagsreiknings eru færðir veltufjármunir og fastafjármunir.

Undir veltufjármuni eru færðar eignir sem falla undir lausafjármuni. Þar má nefna lausafé, birgðir, óinnheimtar tekjur og viðskiptakröfur. Undir veltufjármuni eru færðar eignir sem hægt er að umbreyta í lausafé innan eins árs.

FastafjármunirUndir fastafjármuni eru færðar aðrar eignir svo sem fasteignir, vélar, áhöld og tæki, eignahluti í félögum og langtímakröfur.

Mat á verðmæti stærri eigna í efnahagsreikningi sveitarfélaga er háð öðrum lögmálum en mat á eignum fyrirtækja sem starfa á almennum markaði. Fasteignir sveitarfélags sem notaðar eru við almenna þjónustu við íbúana eru ekki söluvara nema í algerum undantekningartilvikum. Því er markaðsverð þeirra yfirleitt ekki til. Meginregla er að unnið skuli út frá varfærnisreglu þegar þær eru metnar til verðs. Nýjar fasteignir eru færðar inn í efnahagsreikning á raunvirði en eldri eignir eru færðar á verðlagi hvers tíma. Þær eignir sveitarfélaga sem eru forsenda fyrir almennri þjónustu, s.s. skólar, íþróttamannvirki og aðrar þjónustubyggingar eru ekki veðandlag við lántöku. Land er yfirleitt ekki skráð til verðmætis í efnahagsreikningi sveitarfélags. Land á ekki að afskrifa þar sem það rýrnar ekki.

Page 7: Tíðindi 9. tbl. 2015

7

TÍÐINDI

Fjárhagur 8. hluti

Á skuldahlið efnahagsreiknings eru færðar skammtímaskuldir og langtímaskuldir ásamt skuldbindingum sveitarfélagsins. Með skuldbindingum skal telja lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar sveitarfélags vegna einkaframkvæmdarsamninga og samninga vegna sölu og endurleigu fasteigna. Tilheyrandi eignir skulu færðar á eignahlið efnahagsreiknings.

SkammtímaskuldirUndir skammtímaskuldir eru færðar skuldir við lánadrottna, viðskiptaskuldir, skuldir við eigin fyrirtæki og aðrar skammtímaskuldir. Skammtímaskuldir eru þær skuldir kallaðar sem á að greiða innan eins árs. Hlutfall milli veltufjármuna og skammtímaskulda á helst ekki að vera lægra en 1,0 (veltufjármunir / skammtímaskuldir). Ef hlutafallið er lægra en 1,0 (skammtímaskuldir hærri en veltufjármunir) þá er hætta á að erfitt geti reynst að greiða reikninga á gjalddaga. Dráttarvextir fara vaxandi í framhaldi af því.

LangtímaskuldirUndir liðnum langtímaskuldir eru færðar langtímaskuldir við lánastofnanir og aðrar skuldir sem greiða skal á lengri tíma.

Eigið féMismunur niðurstöðutölu eignahliðar á efnahagsreikningi og heildarskulda á efnahagsreikningi er eigið fé eða höfuðstóll sveitarsjóðs. Ef samanlagðar skuldir og skuldbindingar eru hærri en verðmæti eigna er eigið fé neikvætt (minna en ekki neitt).

Page 8: Tíðindi 9. tbl. 2015

8

TÍÐINDI

Nokkur fjölmiðlaumræða varð fyrr í haust um akstursþjónustu fyrir rúmlega áttræða konu sem er inniliggjandi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Snerist umræðan að miklu leyti um það hvort lögheimilissveitarfélagi kon-unnar, Vesturbyggð, væri skylt að útvega henni akstur þannig að hún gæti sótt félagsstarf eldri borgara innanbæjar á Patreksfirði. Konan óskaði einnig eftir akstri þannig að hún gæti litið til með eignum á lögbýli sínu í sveitinni.

Beiðni sína byggði konan á því að hún væri bundin við hjólastól en hún lamaðist árið 2011 eftir alvarleg veikindi. Taldi hún að sveitarfélaginu væri skylt að veita henni akstursþjónustu á grundvelli

laga um málefni fatlaðs fólks, enda þótt hún væri inniliggjandi á heilbrigðisstofnun.

Sveitarfélagið taldi sér á hinn bóginn ekki skylt að veita umbeðna þjónustu og vísaði til þeirrar verkaskiptingar að heilbrigðis- og öldrunarstofnunum beri að sjá inniliggjandi sjúklingum og vistmönnum fyrir nauðsynlegum akstri og ferðum út í samfélagið. Lög um málefni aldraðra gildi um þjónustu við 67 ára og eldri og mæli fyrir um lagaskyldur gagnvart þeim sem veikjast eða verða fyrir áföllum eftir það tímamark.

Máli konunnar var skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Í forsendum

nefndarinnar kemur m.a. fram að aldur hafi einn og sér ekki úrslitaáhrif um rétt til þjónustu ætlaðri fötluðu fólki. Tekið er fram að lög um málefni fatlaðs fólks og lög um málefni aldraðra skarist að einhverju leyti þar sem fatlað fólk getur verið eldra en 67 ára.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að sveitarfélaginu hafi borið að meta heildstætt þörf kæranda fyrir þjónustu og hvernig koma mætti til móts við óskir hennar. Í framhaldinu hafi borið að kanna hvort hin almenna þjónusta á heilbrigðisstofnuninni fullnægði þjónustuþörf kæranda. Hafi sú ekki verið raunin hafi borið að kanna hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga um málefni fatlaðs

Grátt svæði #16

Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga • Óljós ábyrgðarskil eru á milli heilbrigðis- og öldrunarþjónustu annars vegar og fötlunarþjónustu

hins vegar. Þessi óljósu skil koma m.a. fram þegar einstaklingur verður fyrir áfalli eða skerðingu eftir 67 ára aldur.

• Samband íslenskra sveitarfélaga telur að skýra eigi ábyrgðarskil þannig að þörfum einstaklinga sem verður fyrir skerðingum eftir 67 ára aldur eigi að mæta með öldrunarþjónustu skv. lögum nr. 125/1999, sem m.a. miðar að „félagslegri velferð aldraðra“.

• Í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir öldrunarþjónustu frá janúar 2013 er fjallað um ferðir út í samfélagið svo komið verði til móts við þörf fyrir félagsleg samskipti og samveru (liður 3.1.4.5). Þar eru ennfremur ákvæði um akstur vegna sérhæfðra þátta á borð við sérfræðilæknis- og rannsóknaþjónustu (liður 3.1.4.11). Sambandið telur að þetta undirstriki ábyrgð stofnana á sviði heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

• Sambandið telur jafnframt að skýra eigi skilin milli laga á þann veg að fötlunarþjónusta sem notandi nýtur falli ekki sjálfkrafa niður við 67 ára aldur. Einstaklingur geti því notið fötlunarþjónustu áfram ef það er talið viðkomandi einstaklingi í hag.

• Hluti af fötlunarþjónustu snýr að akstri vegna tómstunda, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992. Í leiðbeinandi reglum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, sem velferðarráðuneytið hefur gefið út, kemur fram að skylda sveitarfélags hvað varðar akstur vegna tómstunda, sé bundin við að jafna aðstöðumun varðandi notkun á almenningssamgöngum. Skyldan sé hins vegar ekki fyrir hendi þar sem engum almenningssamgöngum er til að dreifa.

Page 9: Tíðindi 9. tbl. 2015

9

TÍÐINDI

fólks og þannig að hún ætti rétt á ferðaþjónustu. Þar sem þetta heildstæða mat á þjónustuþörf hafði ekki farið fram heimvísaði nefndin málinu til sveitarfélagsins til endurnýjaðrar meðferðar.

Vesturbyggð tók málið aftur fyrir og framkvæmdi það mat sem mælt var fyrir um í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Í framhald-inu freistaði sveitarfélagið þess að setja saman tilboð til konunnar um akstur. Tilraunir sveitarfélagsins til þess að koma akstri í kring hafa hins vegar ekki skilað árangri enda aðstæður erfiðar: engar al-menningssamgöngur til staðar, né heldur leigubílar eða sérútbúnir

bílar fyrir hjólastól sem hægt sé að semja um þjónustu við. Af þeirri ástæðu er nú horft til styrkja sem Tryggingastofnun ríkisins veitir hreyfihömluðum einstaklingum til kaupa á bifreið til eigin nota. Hefur félags- og tryggingamálaráðherra nýlega ákveðið að hækka styrk-fjárhæðir umtalsvert til þess að auðvelda notendum að komast ferða sinna.

Sú akstursþjónusta sem hér um ræðir er eitt af 24 gráum svæðum í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu sem sam- bandið hefur lýst í svokallaðri Grá-bók. Vandinn felst í þeim óljósu ábyrgðarskilum sem vikið er að

í ofangreindum úrskurði þegar notendur óska eftir þjónustu eftir að 67 ára aldri er náð.

Þessi vandi virðist útbreiddur og hafa mörg sveitarfélög vakið athygli á því að heilbrigðis- og öldrunarstofnanir séu ekki að bjóða upp á akstur þrátt fyrir að lög um öldrunarþjónustu mæli fyrir um að félagslegri velferð aldraðra sé sinnt og þjónusta samhæfð. Virðist sem tilvikum sé að fjölga um að þessar stofnanir hafi breytt verklagi sínu frá því sem var meðan þjónusta við fatlað fólk var á hendi svæðisskrifstofa ríkisins.

Page 10: Tíðindi 9. tbl. 2015

10

TÍÐINDI

Dagur upplýsingatækninnar var 26. nóvember sl. Af því tilefni var boðað til málstofu um upplýsingatækni og lýðræðið og ráðstefnu undir heitinu Upplýsingatæknin alls staðar. Greint var frá niðurstöðum úttektarinnar Hvað er spunnið í opinbera vefi? og í lok dagsins voru veittar viðurkenningar fyrir besta ríkisvefinn og besta sveitarfélagavefinn.

Fimm vefir voru tilnefndir í hvorum flokki. Í flokki ríkisvefja hlaut vefurinn www.island.is viðurkenninguna og tók Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, á móti viðurkenningunni ásamt nokkrum samstarfsmönnum.

Í flokki sveitarfélagavefja var vefur Akraneskaupstaðar, www.akranes.is, hluskarpastur og tók Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri við viðurkenningunni fyrir hönd bæjarins.

Myndirnar á síðunni tók Jóhannes Tómasson.

Bestu vefirnir árið 2015 eru akranes.is og island.is

Page 11: Tíðindi 9. tbl. 2015

11

TÍÐINDI

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar, og Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, undirrituðu í dag samninga um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins í næsta mánuði.

Undirbúningur að móttöku flóttafólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR). Hópurinn samanstendur af tíu fjölskyldum; 20 fullorðnum einstaklingum og

35 börnum og dvelur fólkið allt í flóttamannabúðum í Líbanon. Af hópnum munu 23 setjast að á Akureyri, 17 í Hafnarfirði og 15 í Kópavogi.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir gleðilegt að nú sé komið að því að bjóða flóttafólkið velkomið til landsins:

Samið um stuðning til tveggja áraÞað nýmæli er í samningunum, sem undirritaðir voru í dag, að móttökuverkefnið tekur til tveggja ára í stað eins áður. Þetta er gert í samræmi við ábendingar sveitarfélaga sem telja í ljósi reynslu að flóttafólk hafi þörf fyrir stuðning í kjölfar komu hingað

til lands um lengri tíma en áður hefur verið miðað við. Gert er ráð fyrir að greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á samningstímanum nemi samtals 173,4 milljónum króna.

Nánar á vef sambandsins.

Skrifað undir samninga vegna móttöku flóttamanna

„Ég er þess fullviss að sveitarfélögin og aðrir sem hlutverki hafa að gegna muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka sem allra best á móti fólkinu þannig að því geti liðið hér vel og aðlagast íslensku samfélagi. Við landsmenn eigum að sameinast um þetta verkefni og leggja metnað okkar í að gera það sem best.“

Page 12: Tíðindi 9. tbl. 2015

© Samband íslenskra sveitarfélaga

Borgartúni 30 • Pósthólf 8100 • 128 ReykjavíkHönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir

Myndir: Ingibjörg Hinriksdóttir og af vefsíðumRitstjóri og ábm.: Magnús Karel Hannesson

2015/29

Afritun og endurprentun er heimil svo fremi að heimildar sé getið.

Árbók sveitarfélaga 2015Árbók sveitarfélaga 2015 er komin út. Í árbókinni er að finna áhugaverða tölfræði úr rekstri og starfsemi sveitarfélaga og er leitast við að gera upplýsingar úr ársreikningum eins samanburðarhæfar milli sveitarfélaga og fært er.

Bókin kostar 4.000 krónur og er hægt að panta árbókina í gegnum netfangið [email protected]. Þeir sem lögðu inn pantanir á fjár-málaráðstefnu sveitarfélaga hafa væntanlega fengið bókina senda nú þegar.

Rafræn íbúakosning um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík hófst kl. 02:00 aðfaranótt 24. nóvember. Íbúum gefst kostur á að kjósa til 02:00 þann 4. desember og eins oft og hver vill, ef skoðanir kunna að breytast eftir að kosið hefur verið. Svarvalmöguleikar eru tveir, hlynntur eða andvígur deiliskipulagsbreytingunni. Ef merkt er við hvorugt og haldið áfram innan kerfis jafngildir það að skila auðu. Gott er fyrir kjósanda að vera búinn að ganga úr

skugga um að hann sé á kjörskrá og sækja um Íslykil eða rafrænt skilríki eigi hann hvorugt.

Reykjanesbær opnaði fyrr í mánuðinum kosningavef á slóðinni www.ibuakosning.is þar sem nálgast má allar upplýsingar um kosninguna, forsendur, hvað er verið að kjósa um, sjónarmið bæjaryfirvalda og þeirra sem eru mótfallnir deiliskipulagsbreytingunni, upplýsingar um aðstoð við kosningu og hvernig fólk

ber sig að við að nálgast auðkenni til að geta kosið. Einnig er tenging af íbúakosningavefnum yfir í rafræna kjörskrá, bæði á íslensku og ensku. Allar grunnupplýsingar vefjarins eru á íslensku, ensku og pólsku.

Kosningaslóðin verður virk frá kl. 02:00 24. nóvember til kl. 02:00 4. desember.

Rafræn íbúakosning í Reykjanesbæ